Verðugt verkefni Zaragoza í Meistaradeildinni

Tryggvi Snær Hlinason verður kynntur til leiks hjá Zaragoza á …
Tryggvi Snær Hlinason verður kynntur til leiks hjá Zaragoza á næstu dögum. mbl.is/Hari

Tryggvi Snær Hlinason og líklegir liðsfélagar hans í Zaragoza fá verðugt verkefni í Meistaradeild Evrópu í körfuknattleik í vetur en dregið var í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í Mies í Sviss í dag. Zaragoza dróst í D-riðil ásamt PAOK, Besiktas, Dijon, Neptunas og Brindisi. 

Spænskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að Tryggvi Snær væri búinn að skrifa undir samning við spænska liðið en það hefur ekki enn þá verið staðfest. Zaragosa hafnaði í fjórða sæti efstu deildar Spánar á síðustu leiktíð.

Forkeppni Meistaradeildarinnar hefst 15. september og þá munu tvö lið bætast við í riðilinn en það verður annaðhvort lið Szombathely, Oradea eða Ventspils og Inter Bratislava, Fribourg eða Bonn. 

Þá dróst Hapoel Jerusalem í B-riðil en Haukur Helgi Pálsson var orðaður við ísraelska liðið í gær. AEK, Bandirma, Elan Bearnais, Rasta Vechta og Wloclawek eru einnig í B-riðli og þá munu annaðhvort Sortertaljem Balkan Botevgrad eða Antwerp bætast við riðilinn sem og Kapfenberg, Kyiv Basket eða San Pablo Burgos.

mbl.is