Westbrook á leið til Houston

Russell Westbrook.
Russell Westbrook. AFP

Stórstjarnan Russell Westbrook er á leið frá Oklahoma City Thunder til Houston Rockets að því er bandarískir fjölmiðlar greina frá.

Westbrook kemur til Houston í skiptum fyrir Chris Paul og verður þar með samherji James Harden á nýjan leik en Harden lék með Oklahoma áður en hann fór til Houston árið 2012. Þeir hafa sagst vilja endurnýja kynnin. Westbrook hefur leikið allan sinn feril í NBA-deildinni með Oklahoma-liðinu.

Westbrook hefur átta sinnum verið valinn í stjörnuleik NBA og hann var valinn besti leikmaðurinn í deildinni fyrir tveimur árum. Á síðustu þremur tímabilum hefur hann náð þrefaldri tvennu að meðaltali og á síðustu leiktíð skoraði hann 22,9 stig, tók 11,1 frákast og gaf 10,7 stoðsendingar að meðaltali.

mbl.is