Grikkir vilja að dómararnir verði settir í bann

Giannis Antetokounmpo.
Giannis Antetokounmpo. AFP

Forráðamenn gríska körfuknattleikssambandsins vilja að dómararnir sem dæmdu viðureign Grikkja og Tékka á HM í Kína í dag verði settir í bann.

Grikkir fögnuðu sjö stiga sigri 84:77 en sá sigur dugði liðinu ekki til að komast áfram í átta liða úrslitin. Þeir þurftu að vinna með minnst 12 stiga mun.

Stórstjarna gríska liðsins, Giannis Antetokounmpo, fékk sína fimmtu villu um miðjan fjórða leikhluta og voru Grikkir afar ósáttir við ruðningsdóminn sem dæmdur var á Antetokounmpo sem varð til þess að hann þurfti að yfirgefa völlinn. Hann skoraði 12 stig, tók níu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar áður en hann settist á bekkinn.

Þjálfari Grikkja sagði eftir leikinn að Antetokounmpo hefði verið fórnarlamb virðingarleysis í garð sinna manna og eftir leikinn sendu Grikkir skriflega kvörtun til alþjóðakörfuknattleikssambandsins þar sem þess er krafist að dómarar leiksins verði úrskurðaðir í bann.

Grikkirnir vilja einnig að þeir sem völdu dómara leiksins verði settir af sem og myndbandsdómararnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert