Útlitið orðið bjartara í Grindavík

Sigtryggur Arnar Björnsson er á sínu öðru tímabili með Grindvíkingum.
Sigtryggur Arnar Björnsson er á sínu öðru tímabili með Grindvíkingum. mbl.is/Hari

„Útlitið er mjög gott. Við erum með mjög spennandi hóp, góðan kjarna og nýjan þjálfara sem er mjög metnaðarfullur og ég er mjög hrifinn af. Við erum með ungt og ferskt lið,“ segir Sigtryggur Arnar Björnsson, leikmaður Grindavíkur, um körfuboltatímabilið sem er nýhafið.

Grindvíkingar taka á móti Keflvíkingum í Suðurnesjaslag í kvöld og vonast Arnar til þess að þá geti þeir frumsýnt Bandaríkjamanninn Jamal Olasewere, sem missti af tapleiknum gegn Íslandsmeisturum KR í 1. umferð. Auk Olasewere hefur Grindavík meðal annars fengið til sín landsliðsmanninn Dag Kár Jónsson og Björgvin Hafþór Ríkharðsson, og Ingvi Þór Guðmundsson er nú með frá byrjun. Þá er hinn 32 ára gamli Daníel Guðni Guðmundsson orðinn aðalþjálfari í stað Jóhanns Þórs Ólafssonar, eftir að hafa aðstoðað Jóhann á síðustu leiktíð, og Helgi Jónas Guðfinnsson aðstoðarþjálfari.

„Dagur og Björgvin eru báðir mjög sterkir leikmenn. Dagur er mjög góður leikstjórnandi og mér finnst mjög gott að spila með honum. Hann getur búið eitthvað til fyrir alla í liðinu. Björgvin er mikill X-faktor sem getur sprengt upp leiki og hjálpað okkur mjög mikið. Það eru fáir sem ráða við hraðann hjá honum. Ingvi er svo búinn að vera hörkuduglegur í allt sumar, hann var bara alltaf í íþróttahúsinu og hann á klárlega eftir að vera góður í vetur,“ segir Arnar, en þeir Ingvi voru stigahæstir í leiknum við KR í síðustu viku. Þar saknaði Grindavík Olasewere:

„Hann er búinn að vera mjög lítið með en miðað við það sem ég hef séð er hann hörkugóður körfuboltamaður. Hann er nautsterkur, með lágan þyngdarpunkt sem hentar mjög vel í þessa deild. Þó að hann sé ekki hávaxinn þá getur hann stigið menn út og tekið fráköst þannig. Vonandi verður hann með okkur sem fyrst.“

Umfjöllun Morgunblaðsins um liðin sem leika í úrvalsdeild karla í körfuknattleik heldur áfram og á íþróttasíðum blaðsins í dag er fjallað um Grindavík.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert