Sem betur fer er ég rómantískur

Jaka Brodnik í leiknum í kvöld.
Jaka Brodnik í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jaka Brodnik var á meðal bestu leikmanna Tindastóls í 84:92-tapi gegn ÍR í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Brodnik skoraði 16 stig og tók 8 fráköst, en það dugði ekki til. 

„Við byrjuðum þennan leik illa og það er ólíkt okkur. Við leyfðum þeim að vera sterkari en við, sem er sömuleiðis ólíkt okkur. Við gáfum þeim allt of mörg auðveld stig, þar sem vörnin okkar var ekki góð. Þetta var heilt yfir ekki nægilega gott.

Ég veit við erum miklu betra lið en þeir, en þetta var ekki okkar dagur, sérstaklega ekki í sókn. Við töpuðum boltanum of oft og þeir skoruðu auðveld stig hinum megin í staðinn. Þetta var ekki okkar leikur,“ sagði Brodnik. 

Tindastóll hefur ekki getað æft síðustu daga, þar sem rafmagnslaust hefur verið á Sauðárkróki vegna óveðursins síðustu daga. 

„Við höfum ekki æft síðustu tvo daga, þar sem það er ekkert rafmagn í íþróttahúsinu, en þegar þú ferð inn á völlinn gleymirðu því og verður að gera þitt besta. Því miður tókst það ekki í dag og við einbeitum okkur að næsta leik, sem er Grindavík.“

En hvernig er fyrir erlendan mann að vera í rafmagnsleysinu á Íslandi í fárviðri?

„Þetta er furðuleg staða, en sem betur fer er ég rómantískur maður og átti fullt af kertum, svo ég lifði af,“ sagði hann og hló. „Eina vandamálið er að við erum með rafmagnseldavél heima svo það var ekki auðvelt að elda. Ég reyndi að setja kerti undir pott og elda þannig en það gekk ekki sérstaklega vel,“ sagði Slóveninn. 

mbl.is