Útlitið er orðið gott hjá Lakers

LeBron James gómar boltann á gólfinu í leik Lakers og …
LeBron James gómar boltann á gólfinu í leik Lakers og Houston í nótt. AFP

Los Angeles Lakers er komið í kjörstöðu í einvíginu við Houston Rockets í undanúrslitum Vesturdeildar NBA í körfuknattleik eftir sigur í fjórða leik liðanna í Disneylandi í Orlando í nótt, 110:100.

Þar með er staðan orðin 3:1 fyrir Lakers sem getur gert út um einvígið í fimmta leiknum sem fer fram aðfaranótt sunnudagsins.

Anthony Davis skoraði 29 stig fyrir Lakers og LeBron James var með 16 stig og 15 fráköst. Þá skoraði Alex Caruso 16 stig. Russell Westbrook skoraði 25 stig fyrir Houston, James Harden 21 og Eric Gordon 19.

Allt stefnir í úrslitaeinvígi Los Angeles-liðanna í Vesturdeildinni en LA Clippers er líka með 3:1 forystu gegn Denver Nuggets.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert