Denver knúði fram oddaleik

Nikola Jokic reynir skot að körfu Clippers í leiknum í …
Nikola Jokic reynir skot að körfu Clippers í leiknum í kvöld en Ivica Zubac reynir að stöðva hann. AFP

Denver Nuggets knúði fram oddaleik í einvíginu við Los Angeles Clippers í undanúrslitum Vesturdeildar NBA í körfuknattleik í kvöld með því að vinna sjötta leik liðanna, 111:98, í Disneylandi í Flórída.

Staðan er 3:3 og oddaleikurinn fer fram aðfaranótt miðvikudagsins. Leikurinn var hnífjafn fram í miðjan fjórða leikhluta en Denver náði tíu stiga forskoti þegar fjórar mínútur voru eftir og Clippers réð ekki við það.

Nikola Jokic skoraði 34 stig fyrir Denver og tók 14 fráköst. Jamal Murray skoraði 21 stig og Gary Harris 16.

Paul George skoraði 33 stig fyrir Clippers og Kawhi Leonard 25.

mbl.is