Spilaði fyrstur Íslendinga í Litháen

Elvar Már Friðriksson er byrjaður að spila í Litháen.
Elvar Már Friðriksson er byrjaður að spila í Litháen. mbl.is/Hari

Elvar Már Friðriksson varð í gær fyrstur íslenskra körfuboltamanna til að spila í atvinnudeildinni í Litháen en hann gekk til liðs við Siauliai frá Borås í Svíþjóð í sumar.

Fyrsta umferðin var leikin um helgina, Elvar og félagar heimsóttu margfalt meistaralið Zalgiris og áttu aldrei möguleika í þeirri viðureign en Zalgiris vann leikinn 89:56. Liðið hefur orðið litháískur meistari undanfarin tíu ár og í samtals 22 skipti á 27 árum frá stofnun deildarinnar, og státar ennfremur af sigri í Euroleague, sterkustu deild Evrópu.

Elvar lék í 24 mínútur, skoraði níu stig, tók þrjú fráköst og átti tvær stoðsendingar en rúmlega þúsund áhorfendur voru í 15 þúsund manna höllinni í Kaunas. Lið Siauliai hafnaði í áttunda sæti af tíu liðum í deildinni á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert