Landsliðskona var rúmliggjandi í sex vikur

Sara Rún Hinriksdóttir lék stórglæsilega gegn Búlgaríu og skoraði 31 …
Sara Rún Hinriksdóttir lék stórglæsilega gegn Búlgaríu og skoraði 31 stig. Ljósmynd/FIBA

Leikir Íslands við Slóveníu og Búlgaríu í undankeppni EM kvenna í körfubolta voru færðir til Krítar vegna kórónuveirunnar en leikurinn við Slóveníu átti upprunalega að fara fram í Laugardalshöll og leikurinn við Búlgaríu í Búlgaríu. Þess í stað varð úr afar skrautleg ferð til Krítar. Benedikt Guðmundsson þjálfari liðsins og Hannes S. Jónsson formaður KKÍ voru t.a.m. töskulausir nánast alla ferðina. Það og ýmislegt annað kom á daginn á Kýpur.

„Þetta var ótrúleg ferð og mikið sem gekk á. Það týndust fullt af töskum og Benni og Hannes fengu ekki sínar töskur fyrr en í gær (á laugardag) eftir leik. Svo voru allir útbitnir af einhverjum moskítóflugum. Við héldum á tímabili að þetta væru veggjalýs því sumar voru vel bólgnar. Það var svo skrítin tilfinning þegar við sátum í matsalnum og Hannes kemur inn og segir okkur að enginn greindist jákvæður hjá okkur en það greindist einhver í öllum hinum liðunum. Þá vissum við ekki hvað var í gangi, hvort við værum að fara að spila eða hvort við fengjum að æfa. Sumar okkar voru hræddari en aðrar við smit,“ sagði Sara Rún Hinriksdóttir landsliðskona í samtali við mbl.is. 

Benedikt Guðmundsson var töskulaus á Kýpur.
Benedikt Guðmundsson var töskulaus á Kýpur. Ljósmynd/FIBA

„Við vissum ekki hvort við værum að fara að spila daginn eftir. Við vöknuðum, mættum á æfingu og ákváðum þá að spila. Mér fannst það skrítið af FIBA að láta okkur taka ákvörðun. KKÍ leyfði okkur að ákveða hvort við ætluðum að spila leikinn eða ekki, samkvæmt fyrirmælum FIBA. Íþróttamenn spila í gegnum meiðsli og íþróttamenn spila í gegnum áhættuna á að fá veiruna. Okkur fannst skrítið að þessir leikir færu fram,“ sagði Sara.

Hún fékk sjálf veiruna snemma á árinu og var rúmföst í sex vikur. „Ég fékk veiruna í mars og ég var rúmliggjandi í sex vikur. Það var ein önnur sem fékk hana í byrjun tímabilsins og hún hafði það gott í einangrun í tvær vikur. Ég var veik í meira en mánuð og það að að setja okkur í þessa aðstöðu að láta okkur taka þessa ákvörðun var furðulegt. Við mættum þarna og héldum að við yrðum öruggar á hótelinu. Hinar voru í sama prógrammi en samt komu upp smit í þeirra liðum. Við tókum þetta rosalega alvarlega. Þetta var skrítin tilfinning,“ sagði Sara, sem er búin að jafna sig af veirunni og hefur ekki fundið fyrir alvarlegum eftirköstum. „Ég finn öðruvísi lykt af sumum hlutum, það er það eina,“ sagði Sara.

Fjallað er um leik Íslands og Búlgaríu í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. 

Dagbjört Dögg Karlsdóttir sækir að körfu búlgarska liðsins.
Dagbjört Dögg Karlsdóttir sækir að körfu búlgarska liðsins. Ljósmynd/FIBA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert