Nýtt lið sem þarf að setja saman

Finnur Freyr Stefánsson á hliðarlínunni hjá Val í kvöld.
Finnur Freyr Stefánsson á hliðarlínunni hjá Val í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Finnur Stefánsson, þjálfari Vals í körfuknattleik karla, var ekki ánægður með frammistöðu sinna manna í 71:80 tapinu gegn KR í Domino‘s-deildinni í kvöld.

„Þetta eru náttúrulega vonbrigði. Mér fannst frammistaðan ekki nógu góð, við gerðum of mikið af mistökum,“ sagði Finnur í samtali við mbl.is eftir leik.

Hann sagði ýmislegt hafa farið úrskeiðis hjá liðinu. „Mér fannst við vera að gleyma okkur allt of mikið varnarlega, það vantaði fókus til þess að loka þessum atriðum sem við vorum að tala um og ákefð í alla hluti.

Ég veit ekki hversu margar körfur þeir skora eftir sóknarfráköst eða þegar við vorum að brjóta á þeim í þriggja stiga skotum. Það vantaði upp á svona litla hluti. Það var svolítið munurinn að [Ty] Sabin gat skorað þegar hann vildi á meðan við þurftum að hafa meira fyrir öllu einhvern veginn.“

Finnur er þess fullviss að Valsmenn geti betur. „Það er langt tímabil fram undan og mikil vinna. Þetta er náttúrulega nýtt lið sem þarf að setja saman en að sama skapi eru mjög reynslumiklir leikmenn hérna, mjög góðir leikmenn, þannig að við þurfum einhvern veginn að vera betri.

Ég held að það sé lykilatriðið í þessu, að leggja sig meira fram í því sem við gerum og halda einbeitingu betur og bara svona láta vaða á þetta, mér fannst vera of mikið hik á okkur í kvöld.“

Hann segir liðið vitanlega stefna að því að komast í úrslitakeppnina. „Fyrsta markmið er að komast í úrslitakeppnina. Við erum að fara í þessa leikjatörn núna, níu leiki á stuttum tíma með tiltölulega þunnan hóp. Okkur vantar Bandaríkjamanninn og Aron Booker, maður veit svo sem ekki hvenær þeir detta inn. Þeir eru svona helstu skorunarógnir okkar að utan eins og við sjáum þetta fyrir okkur.

En við þurfum bara númer eitt, tvö og þrjú að einbeita okkur að því að bæta okkar leik og reyna að safna sigrum, svo kemur bara í ljós hversu hátt við komumst. Ef við komumst í úrslitakeppnina þá byrjar bara nýtt leikplan,“ sagði Finnur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert