Snýr aftur eftir tuttugu ára fjarveru

Pau Gasol.
Pau Gasol. AFP

Paul Gasol, einn sigursælasti körfuknattleiksmaður heims á þessari öld, hefur ákveðið að leika út þetta keppnistímabil með Barcelona. 

Pau Gasol lék með Barcelona frá 1998-2001 en fyrir tveimur áratugum síðan hélt hann á vit ævintýranna í NBA-deildinni í Bandaríkjunum. Sú ákvörðun borgaði sig og var hann valinn nýliði ársins í deildinni vorið 2002 og átti eftir að verða NBA-meistari í tvígang með LA Lakers 2009 og 2010. 

Pau Gasol var síðast hjá Milwaukee Bucks á síðasta keppnistímabili. Marca greinir frá því í dag að þar sem Gasol hafi ekki leikið með félagsliði á þessu tímabili þá sé hann löglegur í Euroleague keppninni.

Pau Gasol er orðinn fertugur og spurning hversu mikið púður er eftir í honum en í það minnsta er ljóst að hann eykur breiddina enn frekar hjá stórliði Barcelona sem þykir til alls líklegt bæði í spænsku deildinni og í Euroleague. Í báðum tilfellum er liðið keppinautur Valencia, liðs Martins Hermannssonar. Fyrir í leikmannahópi Barcelona er annar leikmaður með langa reynslu úr NBA en það er Nikola Mirotic. 

Pau Gasol er á meðal frægustu íþróttamanna Spánverja en hann varð heimsmeistari með spænska landsliðinu árið 2006, þrívegis Evrópumeistari og á þrenn verðlaun frá Ólympíuleikum. 

Hlynur Bæringsson reynir að stöðva Pau Gasol í leik Íslands …
Hlynur Bæringsson reynir að stöðva Pau Gasol í leik Íslands og Spánar á EM í Berlín árið 2015. Pavel Ermolinskij fylgist með. AFP
mbl.is