„Öll tánöglin var farin af“

Andre Drummond í baráttunni í leiknum í nótt.
Andre Drummond í baráttunni í leiknum í nótt. AFP

Fyrsti leikur framherjans Andres Drummonds fyrir LA Lakers í NBA-deildinni í körfuknattleik fór ekki eins og hann hafði vonast til.

Drummond, sem kom nýverið á frjálsri sölu frá Cleveland Cavaliers, meiddist í fyrsta leikhluta í 97:112-tapi gegn Milwaukee Bucks í nótt þegar Brook Lopez steig á stóru tá hægri fótar hans.

Þrátt fyrir að hafa verið þjáður hélt Drummond áfram að spila í öðrum leikhluta. Hann gat þó ekki haldið leik áfram í síðari hálfleik.

„Ég pældi ekkert í þessu. Ég hélt áfram að spila í öðrum leikhluta og var aðeins meira illt. Svo í hálfleik klæddi ég mig úr sokknum til að skoða tána og öll tánöglin var farin af. Eftir það versnaði þetta bara. Ég gat ekki labbað eða hlaupið þannig að ég sagði þjálfaranum að taka mig út af,“ sagði Drummond eftir leik.

Hann hafði ekki spilað leik í deildinni síðan 12. febrúar með Cleveland. „Að þetta gerist í fyrsta leik er mjög svekkjandi fyrir mig en ég held höfðinu hátt.“

Ekki er ljóst hversu lengi Drummond verður frá vegna meiðslanna en þó er ljóst að hann mun missa af næstu leikjum liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert