„Þeir splundruðu okkur upp mjög auðveldlega“

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar. Kristinn Magnússon

„Þór var betra liðið í kvöld og þeir unnu mjög sanngjarnt,“ sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 92:115 tap gegn Þór frá Þorlákshöfn í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik í Þorlákshöfn í kvöld.

Arnar virtist oft og tíðum hundóánægður með dómgæsluna í leiknum meðan á honum stóð. Hann sagði þó svo alls ekki vera.

„Nei, ég var ekki óánægður með dómgæsluna. Reyndar hefur þessi úrslitakeppni heilt yfir verið mjög vel dæmd.“

Stjörnumenn hittu vel úr þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleiknum en sömu sögu var ekki að segja um síðari hálfleikinn, þar sem skot gestanna fyrir utan teig klikkuðu í hvívetna.

„En ekki hjá þeim! Þeir reyndar skutu mjög vel og Callum [Lawson, leikmaður Þórs] var frábær í kvöld. Við bara réðum ekki við þá, þeir splundruðu okkur upp mjög auðveldlega og vörnin var ekki nógu góð. Því fór sem fór,“ sagði Arnar.

Liðin mætast í fjórða leik í Garðabænum á miðvikudaginn. Þar sem Þór leiðir einvígið 2:1 þurfa Stjörnumenn á sigri að halda til þess að knýja fram oddaleik.

„Það lið sem spilar betur á skilið að vinna en vissulega ætlum við að selja okkur dýrt. Það er alveg á hreinu. Okkur langar ekkert að leggjast niður og gefast upp en við verðum að spila talsvert betur en við gerðum í kvöld,“ bætti hann við.

Spurður um hvað liðið þyrfti helst að laga í næsta leik sagði Arnar:

„Svona fljótt á litið erum við að fá of mikið af auðveldum körfum á okkur. Þeir byrjuðu á því að fá mjög auðveld skot sem þeir settu niður og þar af leiðandi fengu þeir sjálfstraust og eftir það klúðruðu þeir ekki skoti. Við þurfum að byrja strax betur varnarlega.“

mbl.is