Phoenix í góðum málum eftir stórsigur

Dario Saric treður boltanum fyrir Phoenix í nótt.
Dario Saric treður boltanum fyrir Phoenix í nótt. AFP

Phoenix Suns er komið í 2:0 í einvígi sínu gegn Denver Nuggets í undanúrslitum Vesturdeildarinnar í NBA-körfuboltanum eftir 123:98-stórsigur á heimavelli í nótt. 

Phoenix var með tíu stiga forskot í hálfleik, 52:42, og átti Denver ekki möguleika í seinni hálfleiknum, þar sem heimamenn hittu gríðarlega vel fyrir utan.

Devin Booker var stigahæstur í jöfnu liði Phoenix með 18 stig og þá tók hann einnig 10 fráköst. Chris Paul skoraði 17 og gaf 15 stoðsendingar en alls skoruðu sex leikmenn 10 stig eða meira fyrir Phoenix. 

Nikola Jokic var sem fyrr bestur hjá Denver með 24 stig og 13 fráköst. Næsti leikur fer fram í Denver aðfaranótt sunnudags. 

mbl.is