Sannfærandi sigur Njarðvíkinga á meisturunum

Benedikt Guðmundsson tók við þjálfun Njarðvíkinga í sumar.
Benedikt Guðmundsson tók við þjálfun Njarðvíkinga í sumar. Ljósmynd/FIBA

Njarðvíkingar hófu tímabilið í nýrri Subway-deild karla í körfuknattleik með glans þegar þeir lögðu núverandi Íslandsmeistara Þórs frá Þorlákshöfn nokkuð sannfærandi í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld.

107:82 varð niðurstaða kvöldsins og voru Njarðvíkingar  með yfirhöndina megnið af kvöldinu og leiddu með 30 stigum í hálfleik.

Liðin mættust sl. laugardag í Meistarakeppni KKÍ þar sem að Þórsarar unnu einmitt nokkuð sannfærandi sigur og áttu því flestir von á ansi hörðum en um leið jöfnum leik þetta kvöldið. Byrjunin lofaði góðu og stefndi í jafnan leik, en eftir fimm mínútna leik tók Njarðvíkingar öll völd á vellinum.

Þessi hættulegi þriðji leikhluti þegar lið hafa náð slíkri forystu í fyrri hálfleik reyndist Njarðvíkingum þungur en þó ekki þyngri en það að Þórsarar komust aldrei í nein almennileg færi til að ógna sigrinum.

Að þessu sinni voru það einfaldlega Njarðvíkingar sem vöru töluvert sprækari og betur undirbúnir fyrir kvöldið, þrátt fyrir að vera án þjálfara síns, Benedikts Guðmundssonar, sem var í leikbanni. Flæði í leik þeirra og fínasti varnarleikur sýndi sig aftur og hraður leikur þeirra upp völlinn skilaði þó nokkrum auðveldum körfum í bakið á Þórsurum.

Af einstaklingum hjá Njarðvík má nefna að Mario Matasovic átti skínandi góðan leik á báðum endum vallarins sem og Dedrick Basile sem reyndist varnarleik Þórsara afar erfiður allt kvöldið.

Þórsarar eiga þrátt fyrir 25 stiga tap helling inni og í raun aðdáunarvert að sjá Lárus Jónsson þjálfara liðsins vera að byggja upp nánast frá grunni öflugt lið sem á eftir að gera margt meira en að stríða „stórum“ liðum þennan veturinn.

Helsti galli liðsins í kvöld var kannski sú staðreynd að á löngum köflum ætluðu einstaklingar liðsins að freista þess að bjarga kvöldinu að hætti stórstjarna en slíkar aðgerðir misfórust hrapallega.

Gangur leiksins:: 7:2, 13:10, 23:13, 31:17, 36:21, 46:25, 53:32, 57:36, 63:39, 69:45, 71:53, 75:60, 84:63, 90:69, 100:75, 107:82.

Njarðvík: Dedrick Deon Basile 26/5 fráköst/8 stoðsendingar, Mario Matasovic 23/5 fráköst/5 stoðsendingar, Nicolas Richotti 20/5 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 16/12 fráköst/5 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 12, Veigar Páll Alexandersson 8/6 fráköst, Snjólfur Marel Stefánsson 2.

Fráköst: 25 í vörn, 7 í sókn.

Þór Þ.: Daniel Mortensen 24/11 fráköst, Glynn Watson 19/6 fráköst/5 stoðsendingar, Luciano Nicolas Massarelli 13, Ronaldas Rutkauskas 13/10 fráköst, Emil Karel Einarsson 6, Davíð Arnar Ágústsson 3/7 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 2, Ragnar Örn Bragason 2.

Fráköst: 21 í vörn, 18 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Gunnlaugur Briem, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson.





Njarðvík 107:82 Þór Þ. opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert