Skelfileg hittni Valsmanna á Sauðárkróki

Taiwo Badmus skoraði 13 stig fyrir Tndastól í kvöld.
Taiwo Badmus skoraði 13 stig fyrir Tndastól í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Tindastóll vann fjórtán stiga sigur gegn Val í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í 1. umferð deildarinnar í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.

Leiknum lauk með 76:62-sigri Tindastóls sem leiddi með tíu stigum í hálfleik, 45:35.

Valsmenn leiddu með fimm stigum eftir fyrsta leikhluta en eftir það tóku Stólarnir öll völd á vellinum og voru Sauðkrækingar 16 stigum yfir eftir þriðja leikhluta, 59:43.

Hittni Valsmanna í kvöld var ekki til eftirbreytni en liðið skoraði fjórar þriggja stiga körfur úr 30 tilraunum. Þá hittu Valsmenn úr fimm af fjórtán vítaskotum sínum.

Javon Bess skoraði 19 stig fyrir Tindastól og Sigurður Gunnar Þorsteinsson skoraði 16 stig og tók þrettán fráköst. Pablo Cesar var stigahæstur Valsmanna með 18 stig og Kári Jónsson skoraði 16 stig.

mbl.is