Njarðvíkingurinn átti stórleik í Evrópubikarnum

Elvar Már Friðriksson átti stórleik í kvöld.
Elvar Már Friðriksson átti stórleik í kvöld. Ljósmynd/FIBA

Elvar Már Friðriksson átti stórleik fyrir Antwerp Giants þegar liðið tók á móti Sporting í F-riðli Evrópubikars FIBA í Belgíu í kvöld.

Leiknum lauk með 80:75-sigri Antwerp en Elvar skoraði 18 stig, tók fjögur fráköst og gaf sjö stoðsendingar í leiknum og  var stigahæsti maður vallarins.

Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn en Antwerp leiddi með fimm stigum í hálfleik, 42:37.

Elvar Már kom Antwerp fimmtán stigum yfir með þriggja stiga flautukörfu í lok þriðja leikhluta og þrátt fyrir góðan lokasprett Sporting í fjórða leikhluta tókst þeim ekki að jafna metin.

Antwerp er með 2 stig í efsta sæti F-riðils, líkt og Ionikos, en Belfius Mons og Sporting eru án stiga.

Þá komst Tryggvi Snær Hlinason ekki á blað þegar lið hans Zaragoza tapaði 80:100 fyrir Saratov í D-riðli keppninnar í Rússlandi en Tryggvi tók eitt frákast á þeim ellefu mínútum sem hann lék, varði skot og gaf stoðsendingu. 

mbl.is