Njarðvík náði Fjölni á toppnum

Aliyah Collier átti mjög góðan leik með Njarðvík í kvöld.
Aliyah Collier átti mjög góðan leik með Njarðvík í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Njarðvíkingar náðu Fjölniskonum á toppi úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik í kvöld þegar þær sigruðu Grindvíkinga á útivelli, 71:67.

Njarðvík og Fjölnir eru nú jöfn á toppnum í þessari geysilega tvísýnu deild en liðin eru bæði með 20 stig eftir þrettán leiki. Grindavík er áfram í næstneðsta sætinu með sex stig úr fjórtán leikjum, tveimur stigum á undan Breiðabliki.

Leikurinn í Grindavík var jafn allan tímann. Njarðvík var yfir í hálfleik, 32:31, lenti undir í byrjun þriðja leikhluta en hélt naumri forystu eftir það í síðari hálfleiknum. Robbi Ryan freistaði þess að minnka muninn fyrir Grindavík í eitt stig þegar tíu sekúndur voru eftir en þriggja stiga skot hennar geigaði.

Aliyah Collier skoraði 28 stig fyrir Njarðvík, tók 11 fráköst og átti 8 stoðsendingar. Diane Diéné Oumou skoraði 14 stig og tók 14 fráköst og Lavína Joao Gomes skoraði 12 stig.

Hjá Grindavík var Edyta Ewa Falenzcyk með 19 stig og Robbi Ryan skoraði 17 og átti 10 stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert