Boston knúði fram oddaleik

Jayson Tatum og Giannis Antetokounmpo spiluðu báðir frábærlega í nótt.
Jayson Tatum og Giannis Antetokounmpo spiluðu báðir frábærlega í nótt. AFP/Stacy Revere

Boston Celtics knúði fram oddaleik í undanúrslitaeinvígi Austurdeildar NBA-deildarinnar í nótt með 109:95-sigri í sjötta leik einvígisins gegn Milwaukee Bucks.

Leikurinn var mikil skemmtun en Boston leiddi þó svo gott sem allan leikinn. Stjörnuleikmenn liðanna, Jayson Tatum hjá Boston og Giannis Antetokounmpo hjá Milwaukee, skoruðu báðir yfir 40 stig.

Hjá Boston var Tatum með 46 stig og 9 fráköst. Jaylen Brown kom næstur með 22 stig og Marcus Smart skoraði 21. 

Hjá Milwaukee var Antetokounmpo allt í öllu með 44 stig og heil 20 fráköst. Jrue Holiday kom næstur með 17 stig.

Liðin þurfa því að leika oddaleik til að skera úr um hvort þeirra fer áfram í úrslit Austurdeildarinnar. Miami Heat hefur nú þegar tryggt sig þangað.

mbl.is