Stórsigur Golden State í fyrsta leik

Stephen Curry með þriggja stiga skot í nótt.
Stephen Curry með þriggja stiga skot í nótt. AFP/Harry How

Golden State Warriors fer afar vel af stað í einvígi sínu gegn Dallas Mavericks í úrslitum Vesturdeildar NBA-körfuboltans í Bandaríkjunum. Golden State vann fyrsta leik á heimavelli í nótt, 112:87. 

Golden State var með forystu nánast allan tímann og var staðan í hálfleik 54:45. Heimamenn unnu þriðja leikhlutann 34:24 og var Dallas ekki líklegt til að jafna í fjórða og síðasta leikhlutanum. 

Stephen Curry skoraði 21 stig og tók 12 fráköst fyrir Golden State og þeir Andrew Wiggins og Jordan Poole gerðu 19 stig hvor. Luka Doncic skoraði 20 stig fyrir Dallas og Spencer Dinwiddie gerði 17. 

Sigurliðið úr einvíginu mætir annaðhvort Miami Heat eða Boston Celtics í lokaúrslitum. Staðan í því einvígi er 1:0, Miami í vil. 

mbl.is