Halda kyrru fyrir í Keflavík

Anna Ingunn Svansdóttir (t.v.) í leik með Keflavík í byrjun …
Anna Ingunn Svansdóttir (t.v.) í leik með Keflavík í byrjun árs. mbl.is/Óttar Geirsson

Anna Ingunn Svansdóttir og Ólöf Rún Óladóttir hafa báðar komist að samkomulagi við körfuknattleiksdeild Keflavíkur um að leika áfram með kvennaliðinu næstu ár.

Samningur Önnu Ingunnar, sem er uppalin hjá Keflavík er til þriggja ára.

„Anna Ingunn, sem er uppalin Keflavíkurmær, hefur vaxið gríðarlega sem leikmaður undanfarin ár og er hún orðin ein af burðarásum liðsins.

Þessi mikla þriggja stiga skytta skoraði 16,5 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili ásamt því að taka 3 fráköst og gefa 2,5 stoðsendingar. Spilamennska Önnu Ingunnar skilaði henni sæti í A-landsliði kvenna,“ sagði í tilkynningu körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.

Samningur Ólafar Rúnar er til tveggja ára.

„Ólöf, sem er uppalin Grindvíkingur, er á sínu öðru tímabili en strax á síðasta tímabili var hún orðin lykilleikmaður hjá Keflavík með tæp 8 stig að meðaltali í leik á rúmum 20 mínútum,“ sagði í tilkynningunni.

mbl.is