„Stóðu ekki alveg við það sem þeir sögðu við mig“

Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu gegn því …
Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu gegn því ítalska í febrúar síðastliðnum. mbl.is/Árni Sæberg

Framtíð Elvars Más Friðrikssonar, landsliðsmanns í körfuknattleik, hjá ítalska félaginu Dethrona Tortona er í óvissu. Elvar Már gekk til liðs við félagið fyrir aðeins þremur mánuðum síðan.

Hann lék með Antwerp Giants í BNXT-deildinni, sameiginlegri úrvalsdeild Belgíu og Hollands, stærstan hluta síðasta tímabils en skipti yfir til Ítalíu í byrjun apríl. Elvar Már kom aðeins við sögu strax í upphafi dvalar sinnar hjá Dethrona Tortona en síðan ekki söguna meir.

„Ég er ekki búinn að spila körfubolta í þrjá mánuði. Ég var fenginn til Ítalíu frá Belgíu. Það mega bara sex útlendingar vera í hóp og ég var eiginlega fenginn sem sjöundi útlendingurinn.

Það var svona af öryggisástæðum fyrir þá ef einhver skyldi meiðast eða ef einhver skyldi vera fjarverandi. Svo er náttúrlega erfitt að slá einhverja út þegar það er komið að lokum tímabils og æfingarnar eiginlega alltaf bara ganga og verið að undirbúa sig fyrir hvern einasta leik.

Þetta var svolítið skrítin reynsla en á sama tíma alveg skemmtileg. Ég tók þetta á mig til að leitast eftir stærra tækifæri en svo má deila um hvort þetta hafi verið gáfulegt eða hvað,“ sagði Elvar Már í samtali við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Ólafssal á Ásvöllum í dag.

Spurður hvort Dethrona Tortona leggi þá upp með að Elvar Már verði einn af sex útlendingum liðsins á næsta tímabili sagði hann:

„Það var upphaflega planið en svo er komin einhver breyting á því þannig að þeir stóðu ekki alveg við það sem þeir sögðu við mig. Því veit ég eiginlega ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér.“

Elvar Már vonast til þess að fá framtíð sína á hreint, hvort hann haldi kyrru fyrir hjá Dethrona Tortona eða finni sér annað félag, sem fyrst.

„Það verður vonandi í júlí eða ágúst. Það á eftir að koma í ljós,“ sagði Elvar Már einnig í samtali við mbl.is.

Hann býr sig nú undir mikilvægan leik Íslands gegn Hollandi í undankeppni HM 2023 næstkomandi föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert