Tryggvi frábær í mikilvægum sigri

Tryggvi Snær Hlinason reyndist Zaragoza drjúgur í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason reyndist Zaragoza drjúgur í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti afar góðan leik fyrir Zaragoza þegar liðið vann mikilvægan sigur á Real Betis, 89:82, eftir framlengingu í botnbaráttuslag í spænsku ACB-deildinni í kvöld.

Tryggvi var með tvöfalda tvennu þegar hann skoraði 14 stig, tók tíu fráköst og gaf þrjár stoðsendingar á þeim hálftíma sem hann lék fyrir Zaragoza.

Hann var með 100 prósent skotnýtingu í teignum og skoraði úr fjórum af sex vítaskotum sínum.

Sigurinn var kærkominn fyrir Zaragoza þar sem liðið sleit sig aðeins frá neðstu liðunum og er nú í 14. sæti af 18 liðum með tíu stig eftir 18 leiki, fjórum stigum fyrir ofan liðin tvö í fallsætunum.

mbl.is