Skagfirsk sveifla á Hlíðarenda

Valsmenn fagna deildarmeistaratitlinum, þrátt fyrir tap.
Valsmenn fagna deildarmeistaratitlinum, þrátt fyrir tap. mbl.is/Árni Sæberg

Tindastólsmenn mættu í Origo-höllina á Hlíðarenda í kvöld og sigruðu þar Valsmenn afar sannfærandi, 98:71, í lokaumferð Subway-deildar karla í körfubolta.

Valsmenn höfðu þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og tóku við bikarnum eftir leik en þeir enduðu þó með jafnmörg stig og Njarðvík sem hafnar í öðru sæti. Valur mætir Stjörnunni í átta liða úrslitum.

Tindastóll endar í fimmta sætinu, sem var ljóst áður en flautað var til leiks, og mætir Keflvíkingum sem höfnuðu í fjórða sæti.

Leikurinn byrjaði mjög fjörlega þar sem sóknarleikur var svo sannarlega í hávegum hafður og bæði lið voru augljóslega mætt til að sigra. Ákveðin kaflaskil urðu svo í stöðunni 8:8 þegar Tindastólsmenn hertu varnarleikinn og fóru að rífa niður hvert frákastið á fætur öðru á báðum helmingum vallarins. Í lok fyrsta leikhluta var staðan 21:18 fyrir Tindastól.

Skagfirðingarnir bættu um betur í byrjun annars leikhluta og voru fljótlega komnir tíu stigum yfir, 44:34. Þá settu Valsmenn í annan gír og minnkuðu muninn hægt og rólega. Þeir komust svo yfir, 40:39 þegar Ozren Pavlovic setti niður þrist úr horninu og skammt var til hálfleiks. Það voru svo gestirnir sem kláruðu fyrri hálfleikinn betur og leiddu að honum loknum, 45:43.

Þriðji leikhluti fór rólega af stað en hægt og bítandi tóku Tindastólsmenn öll völd á vellinum og voru með sjö stiga forystu eftir leikhlutann 69:62.

Þeir héldu svo áfram veislunni í fjórða leikhlutanum og kveikti Taiwo Badmus svo sannarlega í fjölmennum Grettismönnum í stúkunni, þegar hann tróð boltanum af miklum krafti og kom Sauðkrækingum fjórtán stigum yfir, 78:64.

Tindastólsmenn gengu svo á lagið og röðuðu niður hverju skotinu á eftir öðru án mikillar mótspyrnu frá Valsmönnum, sem virtust vera komnir með hugann við úrslitakeppnina sem er framundan. Leiknum lauk með stórsigri Tindastólsmanna 98:71 og verður gaman að sjá hvernig þessi lið koma inn í úrslitakeppnina.

Taiwo Hassan Badmus var atkvæðamestur í liði Tindastóls með 30 stig, 14 fráköst og 38 framlagsstig. Antonio Keyshawn Woods var einnig stórkostlegur og skilaði 26 stigum, 5 fráköstum og 3 stoðsendingum.

Origo-höllin, Subway deild karla, 30. mars 2023.

Gangur leiksins:: 8:3, 8:11, 11:15, 18:21, 19:23, 22:34, 35:39, 43:45, 45:47, 50:57, 55:64, 62:69, 64:79, 69:82, 69:87, 71:98.

Valur: Ozren Pavlovic 16, Kristófer Acox 12, Ástþór Atli Svalason 11, Frank Aron Booker 10/5 fráköst, Hjálmar Stefánsson 6/6 fráköst, Callum Reese Lawson 5/5 fráköst, Kári Jónsson 4/6 fráköst/8 stoðsendingar, Pablo Cesar Bertone 4, Daði Lár Jónsson 3/6 fráköst.

Fráköst: 23 í vörn, 11 í sókn.

Tindastóll: Taiwo Hassan Badmus 30/14 fráköst, Antonio Keyshawn Woods 26/5 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 13/6 fráköst, Adomas Drungilas 8/8 fráköst, Ragnar Ágústsson 8, Pétur Rúnar Birgisson 7/6 fráköst/9 stoðsendingar, Axel Kárason 3, Davis Geks 3/5 fráköst.

Fráköst: 31 í vörn, 18 í sókn.

Dómarar: Davíð Kristján Hreiðarsson, Johann Gudmundsson, Ingi Björn Jónsson.

Áhorfendur: 298

Valur 71:98 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is