Jókerinn og Murray komu Denver aftur í forystu

Nikola Jokic slær á létta strengi eftir sigurinn í nótt.
Nikola Jokic slær á létta strengi eftir sigurinn í nótt. AFP/Mike Ehrmann

Nikola Jokic og Jamal Murray fóru báðir á kostum hjá Denver Nuggets þegar liðið vann Miami Heat örugglega, 109:94, í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í nótt. Denver er því komið í 2:1 í einvíginu.

Jókerinn spilar vart leik án þess að ná þrefaldri tvennu og brá ekki út af vananum í nótt. Hann skoraði 32 stig, tók hvorki meira né minna en 21 frákast og og gaf tíu stoðsendingar að auki.

Murray var sömuleiðis með þrefalda tvennu og var stigahæstur í leiknum með 34 stig. Tók hann auk þess tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar.

Jimmy Butler fór fyrir Miami og skoraði 28 stig. Bam Adebayo var sömuleiðis öflugur og skoraði 22 stig ásamt því að taka 17 fráköst.

Leikurinn í nótt fór fram í Miami og sömu sögu er að segja af fjórða leiknum, sem fer fram aðfaranótt laugardags.

Vinna þarf fjóra leiki til þess að tryggja sér NBA-meistararatitilinn.

mbl.is