Íslendingur orðinn landsliðsmaður Sýrlands

Andrée Fares Michelsson í leik með Snæfelli árið 2017.
Andrée Fares Michelsson í leik með Snæfelli árið 2017. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuknattleiksmaðurinn Andrée Fares Michelsson, sem á íslenska móður og sænskan föður af sýrlenskum ættum, hefur samið við Al-Ittihad, sem leikur í efstu deild í Sýrlandi.

Karfan.is vekur athygli á félagaskiptunum. Al-Ittihad er í Aleppo og hefur staðið uppi sem sýrlenskur meistari 20 sinnum, síðast á síðasta ári.

Á táningsárum lék Andrée fyrir yngri landslið Svíþjóðar og æfði síðar með U20-ára landsliði Íslands áður en hann þekktist boð um að leika fyrir A-landslið Sýrlands.

Andrée í keppnistreyju Sýrlands.
Andrée í keppnistreyju Sýrlands. Ljósmynd/FIBA

Tók Andrée þátt í undankeppni fyrir Ólympíuleikana með sýrlenska landsliðinu á heimavelli í síðasta mánuði.

Hann er 26 ára bakvörður sem lék síðast með Magic Chieti í ítölsku C-deildinni og hefur einnig leikið í Svíþjóð, þar sem Andrée er alinn upp, í Þýskalandi og á Íslandi.

Hér á landi hefur hann leikið með Snæfelli og Hetti í úrvalsdeildinni og Sindra í 1. deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert