Verður ekkert af endurkomu þess besta

Khabib Nurmagomedov hefur formlega látið belti sitt í léttvigt UFC …
Khabib Nurmagomedov hefur formlega látið belti sitt í léttvigt UFC af hendi. AFP

Dana White, forseti UFC í blönduðum bardagalistum, hefur staðfest að rússneski bardagakappinn Khabib Nurmagomedov hafi formlega látið belti sitt í léttvigt af hendi og sé þar með endanlega og formlega hættur. Nýr léttvigtarmeistari UFC verður því krýndur í maí næstkomandi.

Vonir höfðu staðið til þess að Nurmagomedov myndi endurskoða ákvörðun sína um að hætta, sem hann tilkynnti í októbert síðastliðnum eftir að hafa sigrað Justin Gaethje og varið þannig titil sinn í léttvigt.

Nurmagomedov, sem er 32 ára gamall, er einn albesti bardagamaður í sögu UFC og vann alla 29 bardaga sína á ferlinum.

White hafði átt í viðræðum við hann undanfarna mánuði um að snúa aftur í búrið og freista þess að vinna sinn þrítugasta bardaga. Rússinn gaf svo orðrómum um endurkomu byr undir báða vængi á dögunum þegar hann skrifaði til White á Twitter-aðgangi sínum: „Sendu mér staðsetningu,“ sem eru skilaboð sem hann hefur áður sent White til að gefa til kynna að hann væri reiðubúinn að berjast á ný.

White og Nurmagomedov funduðu hins vegar í gær og varð það þá endanlega ljóst að ekkert verður af endurkomunni. White staðfesti það á Twitter-aðgangi sínum í nótt.

Michael Chandler og Charles Oliveira munu því berjast um léttvigtartitilinn á UFC 262 þann 15. maí næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert