Þjóðverjar úr leik

Þýski varnarmaðurinn Felix Uduokhai hundsvekktur í leikslok.
Þýski varnarmaðurinn Felix Uduokhai hundsvekktur í leikslok. AFP

Þjóðverjar eru úr leik í knattspyrnu karla á Ólympíuleikunum í Tókýó en þeir gerðu 1:1-jafntefli gegn Fílabeinsströndinni í morgun. Fílabeinsstrendingar fara ásamt Brasilíu áfram í fjórðungsúrslitin úr D-riðlinum.

Þjóðverjar hefðu með sigri komist áfram á kostnað andstæðinga sinna en á 66. mínútu skoraði Benjamin Henrichs sjálfsmark, staðan orðin 1:0, Fílabeinsströndinni í vil. Eduard Löwen jafnaði metin fyrir Þjóðverja sex mínútum síðar en nær komust þeir ekki.

Á sama tíma tryggði Brasilía sér toppsæti riðilsins með 3:1-sigri á Sádi-Ar­ab­íu. Matheus Cunha kom Brasilíu í forystu snemma leiks áður en Abdulelah Alamri jafnaði metin. Richarlison, leikmaður Everton á Englandi, skoraði svo tvö mörk á síðasta stundarfjórðungnum tryggði Brasilíu sigur.

Þá fara Suður-Kórea og Nýja-Sjáland í 8-liða úrslit eftir að hafa tekið efstu tvö sætin í B-riðli. Nýja-Sjáland og Rúmenía skildu jöfn í morgun, 0:0, og Suður-Kórea vann 6:0-stórisigur gegn Hondúras.

mbl.is