Ætla að leyfa mér að vera fúl í smátíma

Arna Sigríður Albertsdóttir á Fuji-kappakstursbrautinni í tímatökunni í dag.
Arna Sigríður Albertsdóttir á Fuji-kappakstursbrautinni í tímatökunni í dag. Ljósmynd/ÍF

Arna Sigríður Albertsdóttir, fyrsti keppandi Íslands í handahjólreiðum á Ólympíumóti fatlaðra, sagði eftir tímatökuna í morgun, fyrri grein sína af tveimur á mótinu, að upplifunin hafi verið skemmtileg þrátt fyrir erfitt gengi.

Hún varð síðust af ellefu keppendum og kvaðst vera frekar fúl yfir því. „Það er frekar leiðinlegt að vera svona langt á eftir þeim bestu og ég ætla að leyfa mér að vera fúl með það í smá tíma en ekki lengi. Ég tek með mér fullt af punktum úr þessari keppni,“ sagði Arna við mbl.is eftir keppnina á Fuji-kappakstursbrautinni í bænum Oyama, um 80 kílómetrum norðan við Tókýó.

„Brautin hér í Fuji er ólík öllum öðrum sem ég hef séð og það er talað um að hún sé mjög erfið. Á nokkrum köflum eru mjög brattar brekkur sem er afar erfitt að hjóla upp, og síðan með kröppum beygjum þegar farið er niður. Það duttu allavega tveir til þrír í brautinni á meðan ég var að fara hana,“ sagði Arna.

Hún lauk keppni með góðum endaspretti og var augljóslega útkeyrð eftir 17 kílómetra krefjandi hjólasprett á rúmum 48 mínútum.

„Já, ég var algjörlega búin í markinu, enda tók ég vel á því á lokasprettinum. Það hjálpaði mér hinsvegar þarna undir lokin að það var finnskur strákur í einhverjum öðrum flokki rétt á undan mér og það gaf mér dálítið pepp á þarna í lokin," sagði Arna en seinni grein hennar, 27 kílómetra götuhjólreiðar, er á dagskrá á morgun og hefst laust fyrir klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma.

Frekar stressuð en reyni að nýta reynsluna

„Ég reyni að laga einhverja hluti hjá mér en ég er satt best að segja frekar stressuð fyrir þessu því þetta verður enn erfiðari keppni á lengri braut. En um leið reyni ég að nýta mér reynsluna úr þessari tímatöku,“ sagði Arna og bætti við að margmenni í brautinni hefði helst komið henni á óvart. Fjórir keppnisflokkar, tveir kvennaflokkar og tveir karlaflokkar, voru á ferðinni á sama tíma.

„Já, þetta kom mér á óvart en það var bara fínt að hafa fleiri til að miða sig við í staðinn fyrir að vera ein á ferð. Þó ég hafi verið langt á eftir þeim fyrstu var þetta í heildina séð skemmtileg upplifun, ekki síst að sjá hvað þessar bestu í greininni eru á fáránlega góðum stað.

Þessi íþrótt hefur þróast rosalega á fáum árum og meðalhraðinn hefur aukist gríðarlega. Munurinn frá því ég keppti síðast er mikill,“ sagði Arna Sigríður sem keppti loksins á ný eftir tveggja ára bið en hún komst ekkert á mót erlendis eftir að lokanir hófust vegna kórónuveirunnar og á Íslandi hefur hún enga samkeppni eða mót til að taka þátt í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert