Fyrsta keppni Örnu á Ólympíumóti að baki

Arna Sigríður Albertsdóttir á brautinni í Fuji.
Arna Sigríður Albertsdóttir á brautinni í Fuji. Ljósmynd/Ragnheiður Eyjólfsdóttir

Arna Sigríður Albertsdóttir þreytti í dag, þriðjudag, frumraun íslensks keppanda í handahjólreiðum á Ólympíumóti fatlaðra.

Hún keppti þá í fyrri grein sinni, tímatökunni, á Fuji-kappakstursbrautinni í Oyama, skammt norður af Tókýó. Þar voru ellefu þátttakendur sem hjóluðu 16 kílómetra hver. Þeir voru ræstir með mínútu millibili og tími hvers og eins síðan skráður.

Þegar keppnin var hálfnuð, eftir átta kílómetra, var tími Örnu 23:00,56 mínútur og hún var þá með lakasta tímann af keppendunum ellefu, var hálfri mínútu á  eftir Elisabeth Egger frá Austurríki. Alicia Dana, 52 ára gömul Bandaríkjakona, var með besta tímann eftir átta kílómetra, 15:51,33 mínútur, rúmum 25 sekúndum á undan Anniku Zeyen frá Þýskalandi.

Zeyen, sem er 36 ára, hélt hinsvegar sínu striki á seinni hlutanum og varð paralympics-meistari á 32:46,97 mínútum. Francesca Porcellato frá Ítalíu, sem er fimmtug, fékk silfurverðlaunin á 33:30,52 mínútum og bronsið hlaut hin fertuga Renata Kaluza frá Póllandi á 33:50,32 mínútum.

Arna, sem er 31 árs og þriðja yngst af keppendunum ellefu, kom í mark á 48:22,33 mínútum og mátti sætta sig við ellefta og síðasta sætið, tveimur mínútum og 20 sekúndum á eftir Egger sem varð í tíunda sæti.

Arna keppir í síðari grein sinni, götuhjólreiðunum, á sama stað á morgun. Þá er um hreina keppni að ræða með hópræsingu, reyndar eftir röðinni í tímatökunni í dag, og hjólaðir 27 kílómetrar á brautinni þar sem sá fyrsti í mark sigrar.

Arna Sigríður Albertsdóttir er fyrsti keppandi Íslands í handahjólreiðum á …
Arna Sigríður Albertsdóttir er fyrsti keppandi Íslands í handahjólreiðum á Ólympíumóti fatlaðra. Ljósmynd/ÍF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert