Novator leggur fram 176 milljarða yfirtökutilboð í Actavis

Actavis hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að Novator, félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, stjórnarformanns Actavis, hyggist gera hluthöfum Actavis frjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé í A flokki. Félög tengd Novator eiga nú þegar sem nemur um 38,5% af hlutafé félagsins í A-flokki. Markmið Novator er að eignast allt hlutafé félagsins en miðað við það gengi sem boðið er hljóðar tilboðið upp á 176 milljarða króna.

Fram kemur í tilkynningu Actavis til íslensku OMX kauphallarinnar, að tilboðið verði gert af hálfu óstofnaðs eignarhaldsfélags og lagt fram í evrum og hljóði upp á 0,98 evrur á hlut, sem jafngildi 85,23 krónum á hlut, 9% hærra en lokagengi bréfa Actavis í íslensku kauphöllinni í gær, sem var 78,20.

Fram kemur í tilkynningu frá Novator að tilboðsgengið sé hæsta gengi, sem boðið hafi verið fyrir hlutabréf í félaginu og ríflega 21% hærra en meðaltals lokagengi síðastliðinna sex mánaða. Það sé mat Novator, að verðið endurspegli á mjög sanngjarnan hátt raunvirði félagsins á þessum tíma, einkum og sér í lagi í samanburði við önnur samheitalyfjafyrirtæki á markaði og nýlegar yfirtökur í geiranum.

„Á síðustu misserum hafa átt sér stað miklar sviptingar í lyfjageiranum. Samþjöppun er hröð, barátta um leiðandi stöðu á lykilmörkuðum afar hörð og verðsamkeppni fer sífellt vaxandi. Í slíku umhverfi telur Novator mikilvægt fyrir árangursríka framtíðaruppbyggingu Actavis að afskrá félagið af markaði svo það búi ekki lengur við þær ríku kröfur og skyldur, sem lagðar eru á skráð félög, þ.m.t. um upplýsingagjöf. Novator mun því óska eftir afskráningu félagsins úr OMX kauphöllinni eins fljótt og auðið er.

Novator hefur í hyggju að fjármagna umtalsverðan hluta kaupverðs með lánsfé og því ljóst að Actavis verður á samstæðugrundvelli verulega skuldsett að yfirtökunni lokinni. Novator mun beita sér fyrir enn aukinni áhættusækni í rekstri félagsins, fækka í stjórn þess og birta aðeins á opinberum vettvangi þær upplýsingar, sem almennt er krafist af óskráðum félögum. Það er mat Novator að sú aukna áhætta, sem fylgir slíkri skuldsetningu og stefnu, sé ekki heppileg fyrir almenna fjárfesta og því rétt að gefa öðrum fjárfestum tækifæri til útgöngu áður en að slíkum breytingum kemur," segir í tilkynningu Novator.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK