Nýr loftferðasamningur gerður við Kanada

Frá Halifax en Icelandair heldur uppi áætlunarflugi þangað.
Frá Halifax en Icelandair heldur uppi áætlunarflugi þangað. mbl.is/Árni Sæberg

Samgönguráðherra Kanada greindi frá því í dag að gerður hafi verið nýr loftferðasamningur við Ísland. Um er að ræða loftferðasamning varðandi svonefnda opna lofthelgi (e. Open Skies). Með samningnum verður flugfélögum landanna beggja heimilt að bjóða upp á farþegaflug og fraktflug á milli allra borga í Kanada og Íslands. Samningurinn leysir af hólmi fyrri samning sem gilti um flug Icelandair til Halifax í Kanada en sá samningur hefur verið í gildi frá árinu 1995.

Í fréttatilkynningu frá kanadískum stjórnvöldum kemur fram að samningurinn fylgi í kjölfar fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Kanada sem gerður var í síðasta mánuði. Nýi samningurinn muni væntanlega hafa góð áhrif á viðskipti á milli landanna og fjölga ferðamönnum frá Kanada til Íslands og öfugt, að því er segir í fréttatilkynningu.

Samningurinn tekur einnig til farm- flugs og heimilar flug til Kanada án viðkomu á Íslandi. Samningurinn tiltekur ótakmarkaða tíðni, flutningsmagn og frjálst val viðkomu- og áfangastaða í Kanada og staða handan Kanada. Samningurinn er meðal þeirra frjálslegustu sem Kanadmenn hafa gert, en áður hafa þeir samið við Bandaríkin, Bretland og Írland með svipuðu sniði, samkvæmt tilkynningu.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að langur aðdragandi var að gerð loftferðasamningsins og hefur sendiráð Íslands í Kanada haft veg og vanda að undirbúningi viðræðna. Áralöng staðföst viðleitni Icelandair, einkum flugþjónusta þess við Atlantshafshéruð Kanada, Halifax og St. John’s, liðkaði mjög fyrir samningagerðinni.

Benedikt Jónsson, sendiherra var formaður samninganefndar Íslands. Aðrir nefndarmenn voru: Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins, Markús Örn Antonsson, sendiherra Íslands í Kanada, og Ástríður S. Thorsteinsson lögfræðingur í samgönguráðuneytinu. Einnig sat fundina Gunnar Már Sigurfinnsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, en hann var sá eini sem tilnefndur var af hagsmunaaðilum til þátttöku í viðræðunum.

Fréttatilkynning kanadískra stjórnvalda

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK