Sjeik kaupir 5% í Kaupþingi

Kaupþing banki
Kaupþing banki

Sjeik Mohammed Bin Khalifa Al-Thani hefur keypt 5,01% hlut í Kaupþingi. Er það fjárfestingafélag í hans eigu sem kaupir hlutinn, alls 37,1 milljón bréfa á genginu 690 krónur á hlut. Kaupverðið er því 25.599 milljónir króna. Með kaupunum verður hann þriðji stærsti hluthafinn í bankanum. Mohammed tilheyrir konungsfjölskyldunni í Qatar sem hefur verið við völd í landinu frá níundu öld, að því er kemur fram á vef Kaupþings.

Félagið sem kaupir í Kaupþingi heitir  Q Iceland Finance ehf. og er það að fullu í  eigu Mohammed Bin Khalifa Al-Thania. Er haft eftir honum í tilkynningu að fylgst hafi verið náið með Kaupþingi í einhvern tíma og þeir telji Kaupþing góðan fjárfestingakost. Staða bankans sé sterk og að stjórnendateymi bankans og stefna hans hafi staðið sig vel í því ölduróti sem einkennir fjármálamarkaði nú. Litið sé á fjárfestinguna í Kaupþingi sem langtíma fjárfestingu.

Þetta er ekki fyrsta fjárfesting Mohammed Bin Khalifa Al-Thania í íslensku félagi en í sumar keypti fjárfestingafélag í hans eigu 12,6% hlut í Alfesca. Þegar tilkynnt var um þau kaup kom fram að sjeikinn, sem er bróðir emírsins í Katar, sé vinur Ólafs Ólafssonar, stjórnarformanns Alfesca en þeir hafi stundað veiðar saman í Afríku.

Annar stærsti hluthafinn í Kaupþingi er Egla með 9,88% hlut. Ólafur Ólafsson er einn aðaleigandi Eglu, félags sem var stofnað í kringum sölu ríkisins á Búnaðarbankanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK