Björgunaraðgerðir samþykktar

Öldungadeildarþingmaður repúblikana, Judd Gregg, greindi frá samkomulaginu í kvöld.
Öldungadeildarþingmaður repúblikana, Judd Gregg, greindi frá samkomulaginu í kvöld. AP

Öldungadeildarþingmaðurinn Judd Gregg tilkynnti nú í kvöld að bandarískir þingmenn hafi náð samkomulagi um björgunaráætlun fyrir fjármálakerfi landsins - björgunarpakka upp á 700 milljarða dala. Bandaríkjaþing mun greiða atkvæði um frumvarpið á morgun og samþykkja það með formlegum hætti.

„Við höfum gefið ráðherranum (fjármálaráðherra) leyfi, það bolmagn og þann sveigjanleika sem til þarf, sem hann telur vera nauðsynlegan. Og að sjálfsögðu er það hann sem verður að taka ákvörðunina sem mun vonandi verða skref fram á við og koma á stöðugleika á fjármálamörkuðum,“ sagði Gregg við blaðamenn.

Talið er að fulltrúadeild Bandaríkjaþings muni greiða atkvæði um frumvarpið á morgun og að öldungadeildin muni gera slíkt hið sama.

Áætlanir fjármálaráðuneytisins miða að því að kaupa til baka lán af bönkunum og öðrum fjárfestum, einkum ótrygg húsnæðislán. Þetta verði til þess að þeir fengju  laust fé, sem þá skortir tilfinnanlega nú. Í kjölfarið gætu fjármálastofnanir farið að lána á ný. Vonast er til þess að ríkissjóður geti síðar selt lánin á hæsta mögulega verði á þeim tíma. 

Þetta er stærsta inngrip Bandaríkjastjórnar í fjármálamarkaðinn síðan í kreppunni miklu fyrir nærri áttatíu árum.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir