Vextir lækkaðir í 12%

Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, og Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, sitja …
Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, og Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, sitja báðir í peningastefnunefnd. mbl.is/Golli

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 1 prósentu, úr 13% í 12%, samkvæmt tilkynningu á vef bankans.

Vextir daglána lækka einnig um 1 prósentu en aðrir vextir Seðlabankans eru óbreyttir. Gerð verður nánari grein fyrir ákvörðun nefndarinnar á blaðamannafundi klukkan 11. 

Síðast breytti peningastefnunefnd Seðlabankans vöxtum fyrir tæpum mánuði en þeir voru þá lækkaðir um 2,5 prósentur, úr 15,5% í 13%.

Forsvarsmenn bæði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins hafa síðustu daga sagt, að veruleg vaxtalækkun væri forsenda þess að hægt yrði að ná samkomulagi um stöðugleikasáttmála.

Ákvörðun peningastefnunefndar bankans í dag um stýrivexti mun væntanlega hafa mikið að segja um framhald viðræðna aðila vinnumarkaðarins.

Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sögðu hins vegar á fréttamannafundi nýlega að þeir teldu að horfa þyrfti vandlega á stöðu krónunnar og horfur í efnahagsmálum áður en tekin yrði ákvörðun um stýrivaxtalækkun. Varhugavert geti verið að lækka vextina við núverandi aðstæður, en ákvörðunin væri þó í höndum Seðlabankans.

Á síðasta vaxtaákvörðunardegi peningastefnunefndar, þann 7. maí síðastliðinn, sagði Svein Harald Øygard seðlabankastjóri, að stýrivextir myndu lækka umtalsvert í byrjun júní, ef ákveðnar forsendur verði fyrir hendi. Forsendurnar væru meðal annars þær að gengi krónunnar sé stöðugt, mikið aðhald sé í ríkisrekstrinum og að samningar um Icesave-skuldbindingar Landsbankans lægju fyrir. Þetta hefur ekki að öllu leyti gengið eftir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK