Virði eignasafna nýju bankanna er mjög á reiki

Þeim sem metið hafa virði eigna nýju bankanna þriggja ber engan veginn saman hvert eiginlegt virði þeirra sé. Það hefur valdið togstreitu í viðræðum við erlenda kröfuhafa þeirra og orðið til þess að tímafrestur til að ganga frá ráðstöfun eigna og skulda gömlu bankanna til þeirra nýju hefur enn á ný verið lengdur, nú til 17. júlí.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir að stefnt sé að því að bráðabirgðasamkomulag geti legið fyrir í málinu fyrir júnílok. „Við erum að reyna að finna leið sem lokar ekki öllum gluggum. Leið sem gerir ráð fyrir því að þeir geti átt einhverja leiðréttingarmöguleika.“

Fengu ekki að sjá gögn

Aðalástæða þess að tímafresturinn hefur verið lengdur er að erlendu kröfuhafarnir hafa ekki fengið að sjá gögn sem liggja að baki mati stjórnenda nýju bankanna á virði eigna þeirra, m.a. vegna þess að þeir neituðu að skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu varðandi það sem fram í þeim kom. Þann aðgang fengu þeir þó í byrjun þessarar viku, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Áður höfðu Deloitte og Oliver Wyman skilað mati sínu á eignasafni bankanna á verðbili, þ.e. með efri og neðri virðismörkum. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var útkoma mats a.m.k. Kaupþings og Íslandsbanka nálægt neðri mörkum Wymans-matsins. Auk þess lá fyrir bráðabirgðaefnahagsreikningur nýju bankanna í nóvember síðastliðnum sem var allt öðruvísi en niðurstaða ofangreindra mata. Í honum var eignarsafn bankanna gróflega ofmetið og síðan þá hafa margar eignir verið fluttar yfir til þeirra gömlu vegna tapáhættu sem fylgir þeim. Því er virði þeirra mjög á reiki.

Fyrstu formlegu samningafundirnir á milli fulltrúa ríkisins og skilanefndanna og ráðgjafa þeirra fóru fram 2. júní síðastliðinn. Fyrst kynntu ríkið og nýju bankarnir þrír sínar hugmyndir um hvernig ætti að ganga frá uppgjörinu, en á síðustu dögum hafa skilanefndirnar, fyrir hönd erlendu kröfuhafanna, verið að kynna sínar hugmyndir í þeim efnum.

Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, tekur undir að enn sé stefnt að því að viðræðunum geti lokið um komandi mánaðamót. Aðspurður hvort að rætt hafi verið um aðkomu erlendu kröfuhafanna að eignarhaldi á íslensku bönkunum segir hann allt opið í þeim efnum. „Mér hefur hins vegar virst þetta fremur á hinn veginn. Það hefur ekki verið óskaplega mikill áhugi hjá erlendu kröfuhöfunum að taka yfir bankana.“

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir