Paul vill bjarga Abbey Road

Paul McCartney.
Paul McCartney. Reuters

Paul McCartney segir að verið sé að kanna möguleika á að bjarga Abbey Road hljóðverinu sögufræga í Lundúnum þar sem Bítlarnir tóku upp flestar plötur sínar. Útgáfufyrirtækið EMI hefur sett hljóðverið í sölu.

„Það eru nokkrir, sem hafa tengst hljóðverinu lengi, að tala um að reyna að bjarga því," sagði McCartney við breska útvarpið BBC. „Ég skil þá vel og vona að þeim takist þetta." 

Breska blaðið Financial Times skýrði frá því í gær, að EMI hefði sett Abbey Road á sölulista til að reyna að létta á skuldum sem á því hvíla eftir að fjárfestingarfélagið Terra Firma keypti útgáfuna. Áætlað er að salan gæti skilað fyrirtækinu tugum milljóna punda. 

„Ég á margar minningar þaðan frá Bítlatímanum," sagði McCartney. „Þetta er enn frábært hljóðver."  

EMI hefur ekki viljað tjá sig um málið. Ekki er ljóst hvort fyrirtækið muni einnig selja Abbey Road vörumerkið, sem er talið mikils virði.

EMI keypti bygginguna í St. John's Wood hverfinu í norðurhluta Lundúna fyrir 100 þúsund pund árið 1929. Bítlarnir notuðu hljóðverið til að taka upp flestar plötur sínar, þar á meðal plötuna Abbey Road sem kom út 1969 og á umslaginu er mynd af þeim að ganga yfir gangbraut framan við hljóðverið. Þetta var síðasta platan sem Bítlarnir tóku upp þótt platan Let it Be kæmi út ári síðar.  

Aðrar hljómsveitir, sem notað hafa Abbey Road eru meðal annars Pink Floyd, sem tók plötuna Dark Side of the Moon þar; og einnig Radiohead,  Manic Street Preachers, Travis og Blur.

Terra Firma á fullt í fangi með að standa skil af afborgunum af 3,3 milljarða punda lánum, sem það tók þegar fyrirtækið keypti EMI.   

Myndin á bítlaplötunni Abbey Road.
Myndin á bítlaplötunni Abbey Road.
mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Sigríður S. MacEachern: Test
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir