450 milljarða lán á síðasta fundinum

Lánanefnd Kaupþings banka afgreiddi lán, sem samtals námu um 450 milljörðum króna á gengi dagsins á síðasta fundi sínum 24. september 2008, hálfum mánuði áður en bankinn féll. Fram kom í fréttum Sjónvarpsins að rússneskur auðmaður fékk stærsta lánið, nærri 270 milljarða króna.

Sigrún Davíðsdóttir, fréttaritari Ríkisútvarpsins í Lundúnum, vitnaði í fundargerð lánanefndarinnar en fundurinn var haldinn í borginni. Lánið til Rússans var ekki talið með í lánabókinni, sem stjórn Kaupþings fjallaði um daginn eftir og sem síðar birtist á vef WikiLeaks.

Að sögn Sigrúnar var stærsti hluti lánanna til helstu eigenda Kaupþings, Ólafs Ólafssonar, og Exista. Þá var einnig afgreitt 50 milljóna dala lán til Mohamed Bin Khalifa Al Thani  Al Thani, sem skömmu áður hafði keypt hlut í Kaupþingi. Sagði Sigrún, að um hefði verið að ræða fyrirframgreiddan arð.

Rússinn Alisher Ushmanov  fékk lánið hjá Kaupþingi þennan dag til að kaupa hlut í finnska fjármálafélaginu Sampo en Exista hafði nokkru áður selt hlut í finnska félaginu.  Ushmanov er 57 ára, fæddur í Úsbekistan.  Eru eignir hans metnar á 7,2 milljarða dala að sögn tímaritsins Forbes. Hann á meðal annars stóran hlut í enska knattspyrnufélaginu Arsenal.

Fund lánanefndarinnar sátu Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri,  Bjarnfreður Ólafsson og Gunnar Páll Pálsson, sem sátu í stjórn Kaupþings, og Bjarki Diego, framkvæmdastjóri útlána bankans.

Alisher Ushmanov.
Alisher Ushmanov.
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK