Dohop tilnefnt til verðlauna

Íslenska tæknifyrirtækið Dohop var í morgun tilnefnt til verðlaunanna Asia Pacific 2012 Online Travel Innovation Awards, í flokki flugleitarvéla, fyrir ferðavef sinn www.dohop.com. Sigurvegarinn verður tilkynntur á ráðstefnunni Travel Distribution Summit Asia 2012 í Singapore þann 10. maí.

Í tilkynningu TravelMole, sem veitir verðlaunin, segir að verðlaununum sé ætlað að veita viðurkenningu þeim fyrirtækjum í ferðageiranum sem hafa “vefsíður, samfélagsmiðla eða farsímalausnir sem ná út fyrir það hefðbundna og heilla viðskiptavini og notendur.”

Vefurinn er boði á 25 tungumálum og aðgengilegur notendum um allan heim. Aðeins um 10% notenda síðunnar eru frá Íslandi en flestir gestir koma frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Frá Asíu koma um 22% heimsókna, flestar frá Víetnam og Saudi Arabíu og því um mikilvægt og sístækkandi markaðssvæði að ræða fyrir Dohop.

Dohop var stofnað árið 2004 og vann Travelmole verðlaun árið 2006, þá í flokknum „Best Technology Site.“ Fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun og þar starfa nú 10 manns við hugbúnaðarþróun, sölu og markaðssetningu. Rekstur Dohop skilaði hagnaði í fyrsta sinn árið 2011 og er það til marks um árangursríkt starf félagsins undanfarin ár.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir