Gert að greiða þrotabúi 26 milljónir

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur Þorkell Þorkelsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur gert fyrrverandi framkvæmdastjóra og eina hluthafa Víkurverks að greiða þrotabúi LB09 ehf., áður Víkurverk ehf., tæpar 26 milljónir króna sem hann millifærði á reikning sinn fyrir gjaldþrot félagsins.

Í niðurstöðu dómsins segir að 1. október 2009 hafi Landsbankinn krafist kyrrsetningar fyrir 770.785.853 krónum að höfuðstól vegna þriggja lánasamninga Víkurverks auk áfallinna vaxta, innheimtuþóknunar og kyrrsetningargjalds. Framkvæmdastjórinn benti á bankareikning með innistæðu 24.545.058 krónum á bankareikningi til tryggingar kröfunni. Var sú eign kyrrsett en að öðru leyti var gerðin árangurslaus.

Síðasta dag ársins 2009 krafðist bankinn svo að bú Víkurverks yrði tekið til gjaldþrotaskipta og var það gert 17. mars 2010. Félagið starfrækti verslun með húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi, tjaldvagna, tjöld og tengdar vörur. Einnig hafi félagið verið með útleigu á ferðavögnum

Skuld greidd og arður

Þá var reikningsyfirlit yfir bankareikning Víkurverks lagt fram en þar kemur fram að tvær millifærslur áttu sér stað til framkvæmdastjórans, önnur hinn 4. ágúst 2009, 2.790.000 krónur, og er skýring sögð „vextir“. Hin millifærslan, að fjárhæð 1.800.000 krónur, átti sér stað 6. ágúst 2009 og er engin skýring á yfirlitinu vegna þeirrar greiðslu.

Þá voru millifærslur af öðrum reikningi Víkurverks til framkvæmdastjórans 26. október 2009, 13.987.998 krónur, og hinn 27. október s.á., 7.210.000 krónur. Engar skýringar voru við þær millifærslur.

Endurskoðandi kom fyrir dóminn og sagði að frá árinu 2005 hefði verið í bókhaldi fyrirtækisins skuld við framkvæmdastjórann að fjárhæð 18.790.721 króna. Þá kvaðst framkvæmdastjórinn hafa greitt sér arð með einni millifærslunni og vexti vegna lánsins með annarri.

Ótilhlýðilegar greiðslur

Héraðsdómur tekur undir það með þrotabúinu að millifærslurnar til framkvæmdastjórans, sérstaklega í október, tæpum mánuði eftir að árangurslaus kyrrsetning fór fram hjá félaginu, hafi verið ótilhlýðilegar, þær hafi verið brot á jafnræði kröfuhafa og framkvæmdastjórinn hafi verið grandsamur um greiðsluhæfi félagsins þegar hann lét millifæra þær greiðslur til sín.

Þá er talið að Víkurverk hafi ekki verið gjaldfært á þeim tíma sem fyrri greiðslurnar fóru fram. Framkvæmdastjórinn hafi mátt vita það en hann hafði persónulegan hag af greiðslunum. „Þessar greiðslur til stefnda voru honum til mikilla hagsbóta og brutu jafnframt í bága við hagsmuni kröfuhafa, þar sem honum var á sama tíma ófært að standa í skilum við skuldbindingar sínar en stefndi vissi um erfiða fjárhagsstöðu félagsins á þeim tíma.“

Mynd úr öryggismyndavél við verslun Víkurverka.
Mynd úr öryggismyndavél við verslun Víkurverka.
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir