Krafðist handtöku vegna meintrar sölu húss

Robert og Vincent Tchenguiz.
Robert og Vincent Tchenguiz.

Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office (SFO) fór fram á það að kaupsýslumaðurinn Robert Tchenguiz yrði handtekinn á sínum tíma vegna fréttar breska dagblaðsins Metro þess efnis að hús hans í London væri til sölu.

Haft er eftir lögfræðingi Tchenguiz á fréttavef Reuters að SFO hafi fyrir vikið talið að hætta væri á því að hann hefði í hyggju að flýja land. Frétt blaðsins hafi hins vegar verið röng og SFO hafi ekki haft fyrir því að kanna það. Gagnrýndi lögfræðingurinn stofunina harðlega fyrir slæleg vinnubrögð.

Þetta var meðal þess sem fram kom fyrir breskum dómstóli í dag en Robert og bróðir hans Vincent hafa verið sakaðir um fjársvik í tengslum við fall Kaupþings haustið 2008. Fram kemur í fréttinni að SFO hafi viðurkennt að það ætli að endurskoða stöðu Vincents sem grunaðs í málinu.

Þá segir að ef SFO tæki ákvörðun um að falla frá málinu yrði það mikið áfall fyrir stofnunina og yrði til þess að auka á vangaveltur um að dagar hennar kunni að vera taldir.

Frétt Reuters

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir