Fjárfesting í algjöru lágmarki

Fjárfestingar í sjávarútvegi hafa verið í lágmarki
Fjárfestingar í sjávarútvegi hafa verið í lágmarki mbl.is/Ómar

Í nýlegum hagspám frá Íslandsbanka og ASÍ er gert ráð fyrir töluverðri aukningu í fjárfestingu vegna atvinnuvega. ASÍ gerir ráð fyrir um 22,1% aukningu árið 2013 og Íslandsbanki 19,1% hækkun. Seðlabankinn er nokkuð varfærnari í sinni spá og gerir ráð fyrir um 5,4% aukningu í fjárfestingum atvinnulífsins. Reyndar er nokkuð meiri aukning í spá bankans fyrir árið 2014 og því má gera ráð fyrir að hann telji að frestun verði á nokkrum stórum verkefnum sem aðrir greiningaraðilar telja að hefjist á næsta ári.

Mismunandi spár greiningaaðila

Greiningaraðilar virðast einnig nokkuð ósamstíga varðandi fjárfestingar í sjávarútvegi, en ASÍ og Íslandsbanki gera þar ráð fyrir nokkuð stöðugri fjárfestingu miðað við árið í ár, þrátt fyrir miklar hækkanir á veiðigjaldi og óvissu í greininni. Á meðan telur Seðlabankinn að um 10% samdráttur verði á fjárfestingu í þeirri grein. Samkvæmt kynningu ASÍ á hagspá sinni fyrr í vikunni telur Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur félagsins, að uppsöfnuð þörf sjávarútvegsins muni halda orsaka viðvarandi fjárfestingu og svipaða sögu er að segja frá Íslandsbanka. Seðlabankinn aftur á móti fékk upplýsingar frá forsvarsmönnum sjávarútvegsfyrirtækja um væntanlega fjárfestingu og spáir út frá því.

17 milljarða skattur kemur niður á greininni

Gunnþór Ingvason, framkvæmdarstjóri Síldarvinnslunnar sagði í samtali við mbl.is að fjárfestingaþörfin væri svo sannarlega orðin mikil, fiskiskipaflotinn væri meðal annars farinn að eldast nokkuð. Sagði hann aftur á móti að meðan enginn hvati væri til fjárfestinga færu stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja seint í viðamiklar framkvæmdir.

Hann tekur því ekki undir spár ASÍ og Íslandsbanka og telur að fjárfestingar í atvinnugreininni myndu dragast saman vegna aukinna skattaálagninga. „Ef það er verið að taka 17 milljarða út úr greininni þá er mjög sérstakt að menn haldi að þetta komi ekki neins staðar niður. Það segir sig sjálf að fjárfestingar í sjávarútvegi munu dragast saman.“

Segir hann núverandi kerfi einnig munu ýta undir fækkun sjávarútvegsfyrirtækja og færri störf vegna kostnaðaraðhalds. „Fyrirtækjum mun fækka mjög fljótt. Minni aðilar eru strax byrjaðir að reyna að komast úr greininni. Fyrirtækin sem eftir standa munu því stækka og hagræðingarþörfin á þau fyrirtæki sem eftir lifa mun aukast og þá þarf að fara yfir allt útgerðarmunstrið og fólk mun missa vinnuna og lítið verður fjárfest í framleiðslubúnaði.“

Fjárfesting í ár aðeins 8% af því sem ákjósanlegt er

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum tók í sama streng og benti meðal annars á að hætt hefði verið við 2 til 3 milljarða fjárfestingu í uppsjávarfrystihúsi sem hafði verið á teikniborðinu hjá fyrirtækinu. Benti hann á að fyrirtækið væri í dag með efnahag upp á um 20 milljarða króna, en aðeins væri verið að fjárfesta fyrir um 130 milljónir á þessu ári, eða innan við 1%.

Þetta væri allt of lítið miðað við lágmarksfjárfestingu, en hann segir að lágmarksþörf sé um 5 milljónir evra (rúmlega 800 milljónir íslenskra króna) á ársgrundvelli. Ef fárfestingin eigi aftur á móti að skila auknum framförum, en ekki aðeins að viðhalda núverandi ástandi, segir Sigurgeir Brynjar að nauðsynlegt væri að fjárfesta fyrir 7-10 milljónir evra. Fjárfestingin í ár er því aðeins um 8% af því sem ákjósanlegt er fyrir framgang greinarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK