Ungmenni upplýst um fjármálin

Höskuldur Ólafsson, formaður Samtaka fjármálafyrirtækja og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og ...
Höskuldur Ólafsson, formaður Samtaka fjármálafyrirtækja og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Unnið er með markvissum hætti að eflingu fjármálalæsis í grunn – og framhaldsskólum. Í dag undirrituðu Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Höskuldur Ólafsson formaður  Samtaka fjármálafyrirtækja samning um átak og aðgerðir til að efla fjármálalæsi í grunn- og framhaldsskólum. Samningurinn felur í sér að samtökin fjármagna verkefnið,  þar á meðal laun verkefnisstjóra og námsefnisgerð, segir í tilkynningu.

Samstarfið hefur staðið yfir frá miðju ári 2011 þegar mennta- og menningarmálaráðherra skipaði stýrihóp til þess að efla fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Markmiðið er að efla þessa fræðslu í skólakerfinu markvisst  með hliðsjón af gildandi lögum og aðalnámskrám í samráði við ýmsa aðila. Efnt verður til tilraunakennslu í samráði við fjóra grunnskóla, Melaskóla, Hagaskóla, Hafralækjarskóla og Litlu Laugaskóla og tvo framhaldsskóla, Menntaskólann á Akureyri og Fjölbrautaskólann við Ármúla.

„Bundnar eru miklar vonir um að tilraunakennslan leiði í ljós hvar og hvernig þessari fræðslu verði best fyrir komið í náminu þannig að tryggt sé að allir nemendur fái notið hennar í framtíðinni. Gerð verður könnun í upphafi og lok tilraunakennslunnar á fjármálalæsi nemenda og niðurstöðurnar nýttar til þess að skipuleggja kennslu á þessu sviði til framtíðar.

Í nýjum aðalnámskrám er læsi skilgreint í víðum skilningi og innan þess hugtaks er fjármálalæsi.
Markmiðið með kennslunni er að fræða ungmenni um fjármál og efnahagsmál til þess að þau verði hæfari til að takast á við eigin fjármál og skilja betur efnahagskerfi heimsins. Þá er einnig stefnt að því að kennsla í fjármálum skipi hærri sess í skólum en nú er. Þá er auk þess eitt af markmiðum tilraunakennslunnar að þróa nýtt námsefni sem hægt verði að nota í framtíðinni,“ segir í fréttatilkynningu.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir