Fær ekki heimild til að hraða útgreiðslum til kröfuhafa

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Slitastjórn gamla Landsbankans (LBI) hefur farið þess á leit við Seðlabanka Íslands að hann veiti LBI undanþáguheimild frá lögum um gjaldeyrismál svo hægt sé að greiða út til forgangskröfuhafa yfir 200 milljarða í erlendum gjaldeyri sem féll til eftir 12. mars 2012. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins þá hefur Seðlabankinn hins vegar ekki viljað ljá máls á því að slík undanþága verði veitt á þessari stundu.

Slitastjórn gamla Landsbankans taldi ekki tímabært að tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Kröfuhöfum verður gerð grein fyrir stöðu mála á kröfuhafafundi sem verður haldinn þann 30. maí næstkomandi.

Heimildir Morgunblaðsins herma að óvíst sé hvort Seðlabankinn muni veita þrotabúinu undanþáguheimild fyrir slíkum útgreiðslum til forgangskröfuhafa, sem eru einkum tryggingasjóðir innistæðueigenda í Bretlandi og Hollandi, meðan ekki hefur tekist að semja um endurfjármögnun eða lengingu á erlendum skuldabréfum milli gamla og nýja Landsbankans. Að sögn kunnugra er sú afstaða talin nauðsynleg svo hægt verði að setja þrýsting á kröfuhafa Landsbankans um að setjast að samningaborðinu og endursemja um skilmála skuldabréfanna. Þreifingar hafa átt sér stað milli Seðlabankans og fulltrúa kröfuhafa Landsbankans í tengslum við þau mál á undanförnum vikum.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur ítrekað sagt að það sé nauðsynlegt að lengja í skuldabréfunum milli nýja og gamla Landsbankans í því augnamiði að létta á árlegri endurgreiðslubyrði bankans í gjaldeyri. Fram kemur í nýju riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika að miðað við spár um undirliggjandi viðskiptaafgang þá er „afborgunarferill skuldabréfa Landsbankans of þungur fyrir hagkerfið í heild“. Áætlaðar afborganir af skuldabréfum Landsbankans eru yfir 300 milljarðar króna á árunum 2015 til 2018, eða sem nemur 3-3,5% af landsframleiðslu á tímabilinu. Þær endurgreiðslur einar og sér eru sambærilegar að stærð og spár um undirliggjandi viðskiptaaafgang gera ráð fyrir á þeim árum.

Þarf að halda varasjóð

Fram til þessa hefur slitastjórnin aðeins greitt út til forgangskröfuhafa með gjaldeyri sem þrotabúið átti til í reiðufé fyrir þá breytingu sem var gerð á gjaldeyrislögunum 12. mars árið 2012. Með þeirri lagabreytingu voru almennar undanþágur fjármálafyrirtækja í slitameðferð frá fjármagnshöftum felldar úr gildi þannig að ekki væri hægt að greiða út gjaldeyri til kröfuhafa nema með samþykki Seðlabankans. Sá gjaldeyrir sem búin áttu í reiðufé við setningu laganna fellur þó ekki undir þessa lagabreytingu. Því hefur LBI getað greitt út til forgangskröfuhafa án þess að óska eftir sérstakri undanþágu frá Seðlabankanum.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins á LBI enn nokkuð af lausafé í gjaldeyri sem féll til fyrir 12. mars 2012. Hins vegar álítur slitastjórn Landsbankans nauðsynlegt að halda eftir stórum hluta þess gjaldeyris svo hægt verði að standa undir mögulegum útgreiðslum sem gæti komið til vegna óútkljáðra dómsmála.

Miðað við síðasta ársuppgjör LBI þá átti búið um 170 milljarða í gjaldeyri í reiðufé og jafnframt um 70 milljarða í erlendum skuldabréfum og hlutabréfum. Eftir því sem Morgunblaðið kemst næst er stærstur hluti þessarar fjárhæðar erlendur gjaldeyrir sem féll til eftir lagasetninguna í marsmánuði 2012.

Hefur greitt 677 milljarða

LBI greiddi síðast út hlutagreiðslur til forgangskröfuhafa í október 2012 að andvirði 82 milljarða króna. Aðrar greiðslur voru inntar af hendi í maí sama ár (162 milljarðar) og í desember 2011 (432 milljarðar) en samtals hefur slitastjórnin greitt út að jafnvirði nálægt 677 milljörðum króna. Enn á eftir að greiða forgangskröfuhöfum um 650 milljarða króna, eða rétt tæpan helming.

Alls námu eignir þrotabús Landsbankans 1.543 milljörðum króna um síðustu áramót. Áætlað er að um 1.318 milljarðar verði greiddir út til forgangskröfuhafa. Almennir kröfuhafar gætu því átt von á því að fá um 225 milljarða í sinn hlut. Á síðasta ári jukust áætlaðar heimtur búsins um 170 milljarða og skýrðist sú aukning að mestu vegna sölunnar á bresku verslunarkeðjunni Iceland Foods.

Landsbankinn
Landsbankinn Kristinn Ingvarsson
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir