Sami rekstur á nýrri kennitölu

Gunnars majones hf. hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Forstjóri félagsins er …
Gunnars majones hf. hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Forstjóri félagsins er eigandi nýs félags sem hefur tekið yfir reksturinn.

Framleiðslufyrirtækið Gunnars majones mun áfram starfa með óbreyttu fyrirkomulagi þrátt fyrir gjaldþrot Gunnars majones hf., sem mbl.is greindi frá í morgun. Ný kennitala var stofnuð í mars og nýr framkvæmdastjóri, Hugrún Sigurjónsdóttir, tók við í júní. Hún segir að allt verði óbreytt nema kennitalan, þó verði farið í hagræðingaraðgerðir á komandi mánuðum, en enn sé of snemmt að segja hvernig þær verði.

Nýtt rekstrarfélag fyrirtækisins heitir Gunnars ehf., en eigandi þess er Kleópatra Kristbjörg, sem var áður forstjóri félagsins. Hún er eini skráði eigandi þess, en áður höfðu dætur Gunnars Jónssonar, stofnanda félagsins, þær Helen Gunnarsdóttir og Nancy Ragnheiður Jónsson og Sigríður Regína Waage, eftirlifandi eiginkona hans, átt alla hluti í félaginu. Hugrún segir í samtali við mbl.is að miklar skuldir Gunnars majones hf. hafi sligað það.

Aðspurð um hvað muni felast í hagræðingaraðgerðunum segir Hugrún enn of fljótt að segja til um það. Hún tekur þó fram að ef breytingar verði á starfsmannamálum verði þær óverulegar. Nú sé hins vegar stærsti tími ársins og ekki sé líklegt að farið verði strax í neinar breytingar.

Hugrún er menntaður sálfræðingur en hefur áður meðal annars starfað sem blaðamaður. Aðspurð um aðkomu að fyrirtækjarekstri áður segist hún ekki hafa séð um yfirstjórn á rekstri áður. Hún segir að nú sé unnið að því að senda upplýsingar á alla stærstu viðskiptavini félagsins og þeir látnir vita um stöðu mála.

Frétt mbl.is: Gunnar majones gjaldþrota

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK