Verðtrygging ekki bönnuð

mbl.is/Sigurður Bogi

Tilskipun Evrópusambandsins (93/13/EBE) leggur ekki almennt bann við skilmálum um
verðtryggingu veðlána í samningum milli veitanda og neytanda. Það er
landsdómstólsins að meta hvort umræddur skilmáli sé óréttmætur. Þetta er niðurstaða EFTA-dómstólsins varðandi verðtryggingu á lán á Íslandi. Matið verður að taka mið af skýringu dómstólsins á hugtakinu „óréttmætur skilmáli“. Þetta er svar dómstólsins við fyrstu spurningunni af fimm sem voru lagðar fyrir dóminn.

Með dómi sem kveðinn var upp í dag svaraði EFTA dómstóllinn spurningum sem Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði til hans um túlkun tilskipunar 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum („tilskipunin um óréttmæta skilmála“).

Stefnandi í málinu sem rekið er fyrir landsdómstólnum tók á árunum 2005 og 2007 fasteignalán í formi veðskuldabréfa til fasteignakaupa í Reykjavík. Lánið sem deilt er um var bundið vísitölu neysluverðs með vaxtaendurskoðunarákvæði.

Um mitt ár 2009 hætti stefnandi að greiða af skuldabréfinu. Aðfararbeiðni var lögð fram og í kjölfarið var gert fjárnám í eignarhluta stefnanda í fasteigninni í Reykjavík vegna áhvílandi veðbanda á grundvelli aðfararheimildarinnar í skuldabréfinu.

Í málarekstri sem fylgdi í kjölfarið var meðal annars fjallað um hvort verðtryggingin væri óréttmætur skilmáli í andstöðu við tilskipunina um óréttmæta skilmála. Í þeim málarekstri hélt bankinn sem stefnt var því fram að verðtrygging hafi verið heimil að íslenskum lögum og að lánið hafi uppfyllt öll viðeigandi skilyrði.

Í upphafi minnti EFTA-dómstóllinn á að það er einungis landsdómstólsins sem hefur málið til úrlausnar að meta bæði þörfina á að leita ráðgefandi álits og mikilvægi spurninganna sem vísað er til EFTA dómstólsins í ljósi þeirra tilteknu aðstæðna sem uppi eru í málinu.

Í þessu máli virtist sem Héraðsdómur Reykjavíkur hafi ákveðið að beina spurningunum til EFTA-dómstólsins eins og þær voru orðaðar í dómi Hæstaréttar Íslands í kærumáli vegna ákvörðunarinnar um að leita ráðgefandi álits.

Er í verkahring Hæstaréttar að taka afstöðu

Í samræmi við það ákvað dómstóllinn að leggja mat á þær spurningar. Að því er gildissvið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar um óréttmæta skilmála varðar komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að það væri í verkahring landsdómstólsins að taka afstöðu til þess hvort samningsskilmálar um verðtryggingu lána, eins og þeir sem um er að ræða í máli þessu, séu undanþegnir gildissviði tilskipunarinnar.

Sú undanþága byggi á þeirri réttmætu ályktun að löggjafi aðildarríkis hafi í grundvallaratriðum komið í veg fyrir óréttmæta skilmála í neytendasamningum þar sem hinar bindandi reglur leiti jafnvægis á milli réttinda og skyldna samningsaðila. Frá sjónarhóli neytandans sé það því sérstaklega mikilvægt að EES-ríki tryggi í reynd slíkt jafnvægi. Meta verði þó hvort svo sé í hverju tilviki fyrir sig ef vald er framselt.

Að því marki sem hinir umdeildu samningsskilmálar áttu að endurspegla reglur íslensks réttar um verðtryggingu lána taldi EFTA-dómstóllinn ekki standa efnisleg rök til að gera greinarmun á skilmálum sem verða að fylgja samningi og skilmálum sem eru lögbundnir að efni til en samningsaðilar hafa val um hvort þeir leggi til grundvallar í lögskiptum sínum. Í hvorugu tilvikinu myndi ójöfn samningsstaða hafa áhrif á efni skilmálans neytanda í óhag.

Að því marki sem samningsaðilar urðu að taka mið af samningsskilmálum sem endurspegluðu lagakerfi og regluverk landsréttar taldi EFTA-dómstóllinn að þær reglur giltu jafnt um lánveitendur og neytendur. Komist landsdómstóll hins vegar að þeirri niðurstöðu að tilskipunin gildi í málinu, væri það hans að leggja mat á það hvort umræddir skilmálar væru óréttmætir. Matið yrði að taka mið af skýringu dómstólsins á hugtakinu ,,óréttmætur skilmáli“.

EFTA-dómstóllinn komst enn fremur að þeirri niðurstöðu að tilskipunin legði ekki skilyrðislaust bann við verðtryggingarákvæðum í samningum um veðlán eins og þeim sem hér um ræðir. 3. og 4. gr. 2 tilskipunarinnar mæla einungis fyrir um meginreglur við mat á því hvort tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur.

Enn fremur segir berum orðum í 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, með hliðsjón af d-lið 2. mgr. viðauka hennar, að verðtryggingarákvæði teljist ekki óréttmætir skilmálar, í sjálfu sér, ef vísitölubindingin er lögleg og aðferðinni við útreikning verðbreytinga lýst rækilega í samningi.

Hvað varðar þá spurningu hvort aðferðinni við útreikning verðbreytinga hefði verið rækilega lýst taldi dómstóllinn það ákaflega mikilvægt að neytandi fengi nægilegar upplýsingar um skilmála samnings og afleiðingar hans áður en hann samþykkti hann. Slík lýsing yrði að gefa neytandanum færi á að taka upplýsta ákvörðun áður en hann undirritaði samning. Þetta ætti sérstaklega við í tilvikum þar sem aðilar kæmu sér saman um verðtryggingu sem leiddi sjálfkrafa til breytinga á höfuðstól skuldarinnar líkt og verðtryggingin í þessu tilviki. Það væri á grundvelli þeirra upplýsinga sem neytandi ákvæði hvort hann vildi skuldbinda sig eða ekki samkvæmt skilmálum sem seljandinn eða veitandinn hefði samið fyrirfram.

EFTA-dómstóllinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar verði að túlka með þeim hætti að í þeim tilvikum þar sem landsdómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur samkvæmt tilskipuninni beri honum að tryggja að slíkur skilmáli sé óskuldbindandi fyrir neytandann að því gefnu að samningurinn geti haldið gildi sínu að öðru leyti án hins óréttmæta skilmála að því marki sem reglur landsréttar leyfa. 

Sam­kvæmt dómi Hæsta­rétt­ar verður leitað ráðgef­andi álits EFTA-dóm­stóls­ins á þess­um fimm spurn­ing­um:

  1. Sam­rým­ist það ákvæðum til­skip­un­ar ráðsins 93/​13/​EBE frá 5. apríl 1993 um órétt­mæta skil­mála í neyt­enda­samn­ing­um ef lög­gjöf í ríki sem aðild á að EES-samn­ingn­um heim­il­ar að samn­ing­ur neyt­anda og veit­anda um lán til fjár­mögn­un­ar fast­eigna­kaupa hafi að geyma ákvæði þess efn­is að greiðslur af lán­inu skuli verðtryggðar sam­kvæmt fyr­ir­fram ákveðinni vísi­tölu? -SVAR EFTA: 1. Tilskipun 93/13/EBE leggur ekki almennt bann við skilmálum umverðtryggingu veðlána í samningum milli veitanda og neytanda. Það er landsdómstólsins að meta hvort umræddur skilmáli sé óréttmætur. Matið verður að taka mið af skýringu dómstólsins á hugtakinu ,,óréttmætur skilmáli“. 
  2. Ef svarið við fyrstu spurn­ing­unni er á þann veg að verðtrygg­ing greiðslna af láni sem tekið er til fjár­mögn­un­ar fast­eigna­kaupa sé sam­rýman­leg ákvæðum til­skip­un­ar 93/​13/​EBE þá er í öðru lagi spurt hvort til­skip­un­in tak­marki svig­rúm viðkom­andi samn­ings­rík­is til þess að ákveða með lög­um eða stjórn­valds­fyr­ir­mæl­um hvaða þætt­ir skuli valda breyt­ing­um á hinni fyr­ir­fram ákveðnu vísi­tölu og eft­ir hvaða aðferðum þær breyt­ing­ar skuli mæld­ar? SVAR EFTA: Tilskipun 93/13/EBE takmarkar ekki svigrúm EES-ríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir geti valdið breytingum á fyrirfram ákveðinni vísitölu, á borð við hina íslensku vísitölu neysluverðs, og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar að því gefnu að þeim sé lýst með skýrum hætti í samningnum. 
  3. Ef svarið við ann­arri spurn­ing­unni er að til­skip­un 93/​13/​EBE tak­marki ekki það svig­rúm samn­ings­rík­is sem nefnt er í þeirri spurn­ingu þá er í þriðja lagi spurt hvort samn­ings­skil­máli telj­ist hafa verið sér­stak­lega um­sam­inn í skiln­ingi 1. mgr. 3. gr. til­skip­un­ar­inn­ar þegar a) tekið er fram í skulda­bréfi sem neyt­andi und­ir­rit­ar í til­efni lán­töku að skuld­bind­ing hans sé verðtryggð og til­greint er í skulda­bréf­inu við hvaða grunn­vísi­tölu verðbreyt­ing­ar skuli miðast, b) skulda­bréf­inu fylg­ir yf­ir­lit sem sýn­ir áætlaðar og sund­urliðaðar greiðslur á gjald­dög­um láns­ins og tekið er fram í yf­ir­lit­inu að áætl­un­in geti tekið breyt­ing­um í sam­ræmi við verðtrygg­ing­ar­á­kvæði láns­samn­ings­ins, og c) neyt­andi og veit­andi und­ir­rita báðir greiðslu­yf­ir­litið sam­tím­is og sam­hliða því að neyt­andi und­ir­rit­ar skulda­bréfið? SVAR EFTA: 3. Það er landsdómstólsins að taka afstöðu til þess hvort samið hafi verið sérstaklega um tiltekinn samningsskilmála í skilningi 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE. 
  4. Telst aðferðin við út­reikn­ing verðbreyt­inga í láns­samn­ingi um fjár­mögn­un fast­eigna­kaupa hafa verið út­skýrð ræki­lega fyr­ir neyt­anda í skiln­ingi d. liðar 2. gr. viðauka við til­skip­un 93/​13/​EBE þegar at­vik eru með þeim hætti sem nán­ar grein­ir í þriðju spurn­ing­unni? SVAR EFTA: Það er landsdómstólsins að meta hvort samningsskilmála um verðtryggingu afborgana af láni til fjármögnunar á fasteignakaupum skuli teljast hafi verið lýst fyrir neytandanum með skýrum og skiljanlegum hætti. Slíkt mat verður að taka mið af nákvæmu orðalagi viðeigandi samningsskilmála og öllum öðrum aðstæðum, þar á meðal þeirra sem vísað er til í a- og b-hluta þriðju spurningar
    landsdómstólsins, auk ákvæða landsréttar um verðtryggingu. 
  5. Á ríki sem er aðili að EES-samn­ingn­um val milli þess við inn­leiðingu 1. mgr. 6. gr. til­skip­un­ar 93/​13/​EBE, ann­ars veg­ar að mæla svo fyr­ir í lands­rétti að heim­ilt sé að lýsa óskuld­bind­andi fyr­ir neyt­anda órétt­mæta skil­mála í skiln­ingi 1. mgr. 6. gr. til­skip­un­ar­inn­ar, eða hins veg­ar að mæla svo fyr­ir í lands­rétti að slík­ir skil­mál­ar skuli ávallt vera óskuld­bind­andi fyr­ir neyt­and­ann? SVAR EFTA: 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar verður að túlka með þeim hætti að í þeim tilvikum þar sem landsdómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur samkvæmt tilskipuninni beri þeim dómstól að tryggja að slíkur skilmáli sé óskuldbindandi fyrir neytandann að því gefnu að samningurinn geti haldið gildi sínu að öðru leyti án hins óréttmæta skilmála að því marki sem reglur landsréttar leyfa. 

Niðurstaða EFTA-dómstólsins á íslensku

Fréttaskýring um málið 

Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eru í Brussel í Belgíu.
Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eru í Brussel í Belgíu.
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK