Nauðasamningar standist ekki lög

Heiðar Már Guðjónsson á fundinum í gær.
Heiðar Már Guðjónsson á fundinum í gær. mbl.is/Kristinn

Það má alls ekki aflétta gjaldeyrishöftunum fyrr en slitabú föllnu bankanna hafa verið sett í gjaldþrot og tekin hefur verið upp trúverðug peningastefna hér á landi. Þegar sá dagur rennur upp er mikilvægt að höftin séu afnumin í einu vetfangi þannig að allir standi jafnfætis.

Þetta kom fram í máli Heiðars Más Guðjónssonar, hagfræðings og kröfuhafa í bú Glitnis og Kaupþings, á fundi Samtaka atvinnulífsins um afnám gjaldeyrishafta í Hörpu í gær.

Hann sagði að við uppgjör slitabúanna væri „langeðlilegast“ að farið væri að lögum og búin sett í þrot. Það fælist í því „óviðunandi pólitísk áhætta“ að leyfa slitastjórnunum að semja sig frá gildandi lögum um gjaldeyrismál með því að veita þeim undanþágur frá höftum.

Gjaldþrotaleiðin blasir við

Nauðasamningsleiðin væri jafnframt algjörlega ófær þar sem hún stæðist ekki lögin um gjaldeyrismál og væri í raun tæknilega óframkvæmanleg. „Ef menn ætla í nauðasamninga þarf mikill meirihluti kröfuhafa að samþykkja samningana. Hvernig ætla menn að ná því fram hjá þeim gríðarstóra hópi sem er í þremur eða fleiri mismunandi þrotabúum? Hvernig á að ná fram einingu? Ég sé það sem nánast tæknilega óframkvæmanlegt.“ Í ofanálag þyrfti að tryggja greiðslu á sama tíma og á sömu forsendum til allra kröfuhafa.

Heiðar Már sagði gjaldþrotaleiðina því blasa við. Hann gagnrýndi harðlega umfjöllun Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar í nýrri skýrslu, sem var unnin að beiðni slitastjórnar Glitnis, þar sem fram kemur að gjaldþrotaleiðin hafi verið dæmd úr leik með dómi Hæstaréttar hinn 10. nóvember síðastliðinn í máli Kaupþings gegn Arsebank. Skýrsluhöfundar telja að með því að „ganga inn í þessa blindgötu“ hafi vinna stjórnvalda við afnám hafta tafist um eitt ár. Heiðar sagði það alrangt.

„Hæstaréttardómurinn fjallar bara um gjaldþrotalögin, en ekki um lögin um gjaldeyrismál. Í dómnum segir að ef íslenskt þrotabú fer í þrot, þá megi við tilteknar aðstæður greiða út í erlendum eignum. Það segir hins vegar ekkert um það í dómnum að slíkt er óframkvæmanlegt vegna gjaldeyrislaganna sem gera það að verkum að það er ómögulegt fyrir erlenda kröfuhafa, sem eiga kröfur á íslensk þrotabú, að fá greitt í erlendri mynt. Það er bara ómögulegt.“

Hann bætti loks við að ef dómur Hæstaréttar hefði verið eins og erlendir kröfuhafar og fulltrúar þeirra lýsa honum „hefðu þeir að sjálfsögðu sett slitabúin í þrot fyrir löngu“.

Ofmeta vandann
» Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, sagði á fundinum að aðstæður fyrir afnám hafta gætu vart verið betri en um þessar mundir.
» Aukið gjaldeyrisinnflæði, léttari afborgunarferill og bætt aðgengi innlendra aðila að erlendum lánamörkuðum hefði dregið úr greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins.
» „Við erum klárlega að ofmeta vandann,“ sagði Ásdís jafnframt.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK