Öruggustu flugfélögin 2015

Qantas var valið öruggasta farþegaflugfélag heims þriðja árið í röð.
Qantas var valið öruggasta farþegaflugfélag heims þriðja árið í röð. AFP

Ástralska flugfélagið Qantas er öruggasta flugfélag heims þriðja árið í röð. Rúmlega þriðjungur þeirra félaga sem skoðuð voru fengu hæstu einkunn, en 50 voru með falleinkunn. Þar af voru 10 flugfélög aðeins með eina stjörnu. Þetta kemur fram í samantekt Airline ratings sem hefur lengi fylgst með og metið flugfélög og flugmarkaðinn.

Qantas var stofnað árið 1920 og hefur frá árinu 1951 ekki orðið fyrir neinu banvænu slysi.Aldrei í sögu sinni hefur félagið misst þotu, en fyrir 1951 varð félagið fyrir 8 slysum þar sem 80 létu lífið. Var stór hluti þess meðal annars í miðri seinni heimstyrjöldinni þegar félagið þjónustaði bandamenn.

Tvö félög frá Norðurlöndunum.

Airline ratings skoðar bæði slysasögu flugfélaga og opinber gögn flugmálayfirvalda og flugsamtaka til að finna út hvernig meta eigi flugöryggi flugfélaganna. Önnur félög sem komust á lista 20 efstu flugfélaganna eru (í stafrófsröð):  Air New Zealand, Alaska Airlines, All Nippon Airlines, American Airlines, Cathay Pacific Airways, Emirates, Etihad Airways, EVA Air, Finnair, Hawaiian Airlines, Japan Airlines, KLM, Lufthansa, Scandinavian Airline System, Singapore Airlines, Swiss, United Airlines, Virgin Atlantic og Virgin Australia. Þrjú þessara félaga eru frá Bandaríkjunum og tvö frá Norðurlöndunum.

Einnig var tekinn saman listi yfir öruggustu lágfargjaldaflugfélögin. Eru þau í stafrófsröð eftirfarandi: Aer Lingus, Flybe, HK Express, Jetblue, Jetstar Australia, Thomas Cook, TUI Fly, Virgin America, Volaris og Westjet.

10 félög með aðeins eina stjörnu

Í heild skoðaði Airline ratings 407 flugfélög og mat hæfi þeirra á skalanum 1 til 7 stjörnur. 148 félög voru með hæstu einkunn, eða sjö stjörnur, en 50 félög fengu þrjár stjörnur eða færri. Þar af voru 10 flugfélög með eina stjörnu. Þau komu öll frá Indónesíu, Nepal eða Surinam.

Slysafjöldi vel undir 10-ára meðaltali

Nokkur alvarleg flugslys urðu í fyrra, meðal annars þegar flugvél GermanWings fórst í Ölpunum og vél Metrojet í Egyptalandi. Þrátt fyrir að 560 manns hafi látist í 16 slysum á árinu hjá farþegaflugfélögum var það lægri tala en meðaltal síðustu 10 ára með 21 slys og 986 látna að meðaltali. Árið 2014 var sérstaklega slæmt ár, en þá létust 986 manns í 21 slysi.

Samtals flytja farþegaflugfélög heimsins um 3,6 milljarða farþega á ári í 34 milljón flugum. Fyrir 50 árum var fjöldi farþega aðeins um 141 milljón og flugfélögin 1.597. Dauðaslys voru aftur á móti 87 talsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir