Ísam kaupir Eggert Kristjánsson

Íslensk-Ameríska (Ísam) hefur fest kaup á rekstri heildverslunarinnar Eggert Kristjánsson ...
Íslensk-Ameríska (Ísam) hefur fest kaup á rekstri heildverslunarinnar Eggert Kristjánsson ehf. mbl.is/Rax

Íslensk-Ameríska (Ísam) hefur fest kaup á rekstri heildverslunarinnar Eggert Kristjánsson ehf. Fyrirtækið kaupir Ísam af Leiti eignarhaldsfélagi en það er meðal annars í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar, sem oftast er kenndur við Subway. Hann keypti Eggert Kristjánsson árið 2013 ásamt þeim Hallgrími Ingólfssyni, fyrrum framkvæmdastjóra Byggt og búið, og Páli Hermanni Kolbeinssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Kaupin eru gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki samkeppnisyfirvalda.

Velta Eggerts Kristjánssonar nam í fyrra um 1,4 milljörðum króna. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í innflutningi og dreifingu á matvöru og búsáhöldum til matvöruverslana, veitingahúsa og annarra. Þá flytur fyrirtækið einnig inn snyrtivörur og fæðubótarefni. Hjá fyrirtækinu starfa um 20 manns.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Ísam, segir að kaupin byggist á áhuga fyrirtækisins á þeim viðskiptasamböndum sem Eggert Kristjánsson búi yfir. „Þarna eru mörg öflug evrópsk umboð á matvælasviðinu sem falla mjög vel að okkar vöruvali. Þá starfar hjá fyrirtækinu margt öflugt starfsfólk sem við höfum áhuga á að fá í okkar raðir,“ segir Bergþóra.

Í árslok 2014 námu eignir Eggerts Kristjánssonar 424 milljónum króna en skuldir námu 366 milljónum króna. Þannig nam eigið fé félagsins um 58 milljónum. Það ár nam hagnaður fyrirtækisins 1,9 milljónum króna en árið 2013 reyndist tap þess 48 milljónir.

Meðal þekktra umboða sem fyrirtækið hefur á að skipa eru Findus, Beauvais, Daloon, Kuchen Meister, Maille og Royal Oak.

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir