Á annan tug snekkja til Reykjavíkur

Lúxussnekkjan Cloudbreak kom til Reykjavíkur í sumar en hún er …
Lúxussnekkjan Cloudbreak kom til Reykjavíkur í sumar en hún er m.a. búin þyrlupalli, heilsulind og líkamsræktarstöð.


Fleiri snekkjur og minni lúxusskip hafa haft viðkomu á Íslandi í sumar en undanfarin ár að sögn Björns Einarssonar, framkvæmdastjóra TVG-Zimsen, sem ásamt dótturfyrirtækinu Gáru þjónustar flest skipin hér á landi. Á annan tug snekkja hefur haft viðkomu í Reykjavík í sumar sem er talsvert meira en áður.

Björn segir í fréttatilkynningu að auka þurfi gæðin í ferðamennsku til að sinna þessum hópi ferðamanna sem eru yfirleitt mjög efnaðir.

„Með snekkjunum og minni lúxus-skemmtiferðaskipunum kemur oft mjög efnað fólk sem er í flestum tilvikum að leggja áherslu á dýpri innlifun á landinu, náttúrunni og norðurslóðum heldur en t.d. farþegar á stóru skemmtiferðaskipunum sem eru eins og fljótandi hótel. Tækifærin felast að okkar mati í aukinni og bættri þjónustu og fjölbreyttari afþreyingu fyrir þetta fólk því það dvelur oft lengur hér á landi heldur en farþegar skemmtiferðaskipa sem eru að stoppa að meðaltali 8-10 klukkustundir í landi. Við sjáum möguleikana m.a. í sjótengdri ferðamennsku. Það þarf aukin gæði til að sinna þessum hópi ferðamanna. TVG-Zimsen hefur mikinn metnað og áhuga að þróa þennan hluta ferðamennsku áfram. Með gæðalausnum mun þetta auka gæðin í ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir Björn enn fremur í fréttatilkynningu.

Lúxussnekkja í eigu rússneska auðkýfingsins Andrey Melnichenko vakti mikla athygli bæði í Reykjavík og á Akureyri í sumar. Snekkjan er óvenjuglæsileg og er hönnuð af Philippe Starck. Einnig kom lúxussnekkjan Cloudbreak til Reykjavíkur í sumar en hún er m.a. búin þyrlupalli, heilsulind og líkamsræktarstöð.
 Þá hefur glæsisnekkja Paul Allen, eins af stofnendum Microsoft, verið tíður gestur á Íslandi undanfarin ár. Fleiri glæsisnekkjur hafa sést í höfnum hér á landi í sumar. Eigendurnir og samferðamenn eru í flestum tilvikum mjög efnaðir, segir í fréttatilkynningu.

Þá hafa tvö lúxus-skemmtiferðaskip, L’Austral og Le Boreal, siglt hringinn í kringum Ísland í sumar. Hvort skip fyrir sig hefur farið fimm ferðir í kringum landið og haft viðkomu í fimm höfnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK